„Já, það er rétt, það er ekki virkt brunaviðvörunarkerfi í Selfosskirkju. Samkvæmt byggingarreglugerð flokkast kirkjur undir mannvirki í flokki tvö en í þeim mannvirkjum, þar sem gert er ráð fyrir fólksfjölda yfir fimmtíu manns, er gerð krafa um sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi.“
Þetta segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, en eldur kom upp í loftræstikerfi kirkjunnar á dögunum.
Pétur segir að í byggingum sem þessum þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum fólksfjölda sé gerð krafa um staka reykskynjara. „Mín persónulega skoðun er sú að fara eigi að lögum og reglum í þessum efnum sem öðrum. Þarna er um líf fólks og menningarverðmæti að ræða,“ segir Pétur.
Úttektaráktak í kirkjum sýslunnar
Pétur segist ekki geta svarað því hvort eldvarnarkerfi séu alla jafna í kirkjum. „Á þessari stundu er erfitt fyrir mig að svara því hvort kirkjur landsins hafi brunaviðvörunarkerfi eður ei. Hins vegar er búið að vera í undirbúningi hjá eldvarnaeftirliti Brunavarna Árnessýslu úttektarátak í kirkjum sýslunnar og er það átak að fara af stað um þessar mundir,“ segir Pétur.
Með tilliti til velferðar fólks, menningarverðmæta og tilfinningalegs gildis kirkna fyrir þá sem sækja þær sé full ástæða til að í þeim sé sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi, hvort sem gert er ráð fyrir fólksfjölda undir eða yfir 50 manns.
Heimild: Sunnlenska.is