Home Fréttir Í fréttum Áform um að byggja graskögglaverksmiðju við Húsavík

Áform um að byggja graskögglaverksmiðju við Húsavík

118
0
Haukur segir jákvætt hve mikið land er til staðar í nærumhverfi Húsavíkur. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Áform eru um að endurvekja graskögglaframleiðslu á Íslandi. Graskögglaverksmiðja við Húsavík er í startholunum og stefnt er á að hefja byggingu á henni árið 2024.

<>

Áform eru um að reisa graskögglaverksmiðju við Húsavík sem verður knúin jarðvarma. Forsvarsmaður verksmiðjunnar segir að hún eigi eftir að skapa tugi starfa og lækka matvælaverð.

Úr jarðefnaeldsneyti í jarðvarma

Graskögglar til húsdýrafóðurs voru framleiddir hér á landi fyrir aldamót. Nú stendur til að endurvekja þá hefð. Fyrirhuguð framleiðsla við Húsavík yrði knúin glatvarma, en áður var notað jarðefnaeldsneyti. Haukur Marteinsson, bóndi og formaður Búnaðarsambands Suður Þingeyinga, segir að hugmyndinni hafi verið vel tekið.

„Nú á dögum er svo mikil umræða um umhverfisáhrif og umhverfisáhrif í matvælaframleiðslu. Við erum að flytja gríðarlega mikið magn yfir hafið þvert yfir hnöttinn til að fóðra dýrin til að framleiða mat ofan í fólkið. Þannig að við í raun fórum af stað með það að reyna að framleiða þetta fóður sjálf og samhliða því erum við náttúrulega að reyna að skapa störf og verðmæti og atvinnumöguleika fyrir, ekki bara bændur heldur landeigendur í dreifbýli.“

Verksmiðjan verður aðallega notuð til graskögglaframleiðslu en býður líka upp á möguleika á að þurrka korn.

Stórlækkar kjörfóðurkostnað bænda

Haukur segir markmiðið vera að klára helstu forvinnu í haust og hann vonar að hægt verði að hefjast handa við að reisa verksmiðjuna sumarið 2024. Hann segir framleiðsluna eiga eftir að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið og skapa tugi starfa.

„Síðan fyrir samfélagið í heild myndi þetta hafa mjög mikil áhrif á umhverfisþættina, minnka innflutning og síðan bara á matvælaverð með því að stórlækka kjörfóðurkostnað bænda.“

Heimild: Ruv.is