Home Fréttir Í fréttum 210 milljarðar í uppbyggingu Landspítala

210 milljarðar í uppbyggingu Landspítala

66
0
Byggingarreitur nýs Landsspítala. RÚV – Ragnar Visage

Núverandi ríkisstjórn áætlar að verja 210 milljörðum króna í uppbyggingu nýs Landspítala á árunum 2010-2030. Þegar hefur verið varið 29 milljörðum króna á 13 árum en aukinn hraði verður settur í framkvæmdir frá og með næsta ári.

<>

Heildarkostnaður við byggingu nýs Landspítala verður 210 milljarðar króna þegar upp er staðið og verkefnið er það dýrasta í Íslandssögunni. Þetta er meðal þess sem kom fram í áætlun ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins sem kynnt var í dag.

Kostnaður á þessu ári við nýjan meðferðarkjarna, rannsóknahús og framkvæmdir við Grensás verður 21,5 milljarðar. Síðasti fasi verkefnisins samkvæmt núverandi áætlun, árin 2024 til 2030, verður langdýrastur og talinn kosta rúma 160 milljarða króna.

„Á næsta ári verður framkvæmdahraðinn orðinn slíkur að við erum að setja um 25 milljarða á næsta ári og á hverju ári árin þar á eftir,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Til samanburðar hefur á 13 ára tímabili frá árinu 2010 verið fjárfest í uppbyggingu Landspítala fyrir tæpa 29 milljarða króna.

Ríflega 13 milljarðar í nýtt geðsvið
Aðspurður hvort farið hafi verið fram úr áætlun segir Bjarni uppfærslu hafa verið þörf vegna viðbótarbygginga, til dæmis nýrrar krabbameinsdeildar. Nýtt húsnæði undir geðsvið á síðan að kosta ríflega 13 milljarða. Þá þarf einnig að taka tækjakaup með í reikninginn.

„Þegar yfir lýkur erum við að horfa á heildarfjárfestingu yfir 200 milljarða sem er allt önnur tala en við höfum verið að tala um til þessa, enda erum við að ná utan um miklu stærra verkefni,“ segir Bjarni

Búið er að fjármagna til fulls fyrsta áfanga uppbyggingarinnar. Nýtt sjúkrahótel var fyrsta verkefnið sem lokið var við. Það var tekið í notkun vorið 2019.

Þegar fyrsti áfangi klárast bætast við meðferðarkjarni, rannsóknahús, bílastæða- og tæknihús, bílakjallari og bílastæðahús. Mesta umfangið snýr að meðferðarkjarnanum sem kostar um 64 milljarða króna.

Miklar áskoranir fram undan
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir miklar áskoranir fram undan í geðheilbrigðismálum, öldrunarmálum og vegna aukins krabbameins.

„Við þurfum að byggja hér upp öfluga göngudeildarþjónustu, krabbameinsþjónustu og þjónustu á fjölmörgum sviðum, meðal annars í geðheilbrigðismálunum og horfa til samhæfingar á þeirri þjónustu.

Þá þurfum við að hafa öflugt batamiðað húsnæði sem hentar þörfum fólksins sem þarf á þjónustunni að halda og þeim sem sinna þessari þjónustu.“

Heimild: Ruv.is