Home Fréttir Í fréttum Brýnt að tryggja öryggi í leiguhúsnæði og skerpa á heimildum slökkviliðs

Brýnt að tryggja öryggi í leiguhúsnæði og skerpa á heimildum slökkviliðs

45
0
Eldur kviknaði í Vatnagörðum 17. febrúar. Þar var áfangaheimilið Betra líf til húsa en slökkvilið var að leggja lokahönd á svarta skýrslu um brunavarnir þar þegar eldurinn kviknaði. RÚV – Ragnar Visage

Starfshópar á vegum innviðaráðuneytisins hafa unnið að útfærslum á kröfum um brunavarnir og auknum heimildum slökkviliðs til eftirlits síðan í apríl 2022. Varaslökkviliðsstjóri segir brýnt að tryggja öryggi í leiguhúsnæði.

<>

Slökkvilið vill skýrari reglur um kröfur til brunavarna í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu og telur brýnt að fá aukna heimild til þess að skoða íbúðarhúsnæði í útleigu. Tveir starfshópar innviðaráðuneytisins hafa unnið að útfærslu á tillögum um úrbætur í þessum efnum síðan í apríl 2022.

„Allt snýr þetta að fólki sem býr annars staðar en í húsnæði sem það á sjálft. Þú ert að leigja einhvers staðar og það sé verið að tryggja það að það sem þú leigir sé öruggt fyrir þig,“ segir Birgir Finnsson, varaslökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Birgir segir fólk geta breytt íbúðarhúsnæði sínu og gert nokkur herbergi til útleigu úr hefðbundinni íbúð, en að flóttaleiðir, brunahólf og fleiri atriði geti um leið breyst.

„Þannig að húsnæðið verður ekki öruggt fyrir alla sem þar búa.“

Birgir Finnsson, varaslökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
RÚV – Freyr Arnarson

Slökkvilið hefur litlar heimildir til að aðhafast í íbúðarhúsnæði
Birgir segir að vegna ástandsins á húsnæðismarkaði þori verst stöddu leigjendurnir ekki endilega að leita aðstoðar.

„Vegna þess að það er bara svo hrætt við að missa húsnæðið.“

Ef slökkvilið fær ábendingu um ófullnægjandi brunavarnir í íbúðarhúsnæði hefur það litlar heimildir til að aðhafast.

„Við getum auðvitað bankað upp á og beðið um að fá að skoða en það er í raun og veru eitthvað sem við horfum ekkert á sem möguleika, vegna þess að þá sitjum við svolítið uppi með að við höfum vitneskju um þennan hlut. Það er líka bara gagnvart okkar starfsfólki – við þurfum að hafa einhverjar heimildir þannig að við getum fylgt þessu eftir.“

Annað sem er til skoðunar hjá starfshópnum eru fjöldaskráningar í húsnæði.

„Það er auðvitað óeðlilegt að það séu fleiri tugir manns skráðir í einhverja íbúð sem aldrei búa þar,“ segir Birgir.

Hús við Bræðraborgarstíg 1 brann 25. júní 2020. Þrjú fórust í brunanum, tvær konur 24 og 26 ára og 21 árs karlmaður.
RÚV

„Ef þú átt bíl þá þarftu að fara með hann í skoðun“
Breyttar reglur myndu meðal annars innihalda leiðbeiningar um hvernig slökkvilið gæti skoðað íbúðarhúsnæði og þá hvaða íbúðarhúsnæði. Þá yrðu heimildir slökkviliðs og byggingarfulltrúa til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum endurskoðaðar.

„Ef þú átt bíl þá þarftu að fara með hann í skoðun. Og ef þú færð ekki skoðun á bílinn máttu ekki keyra hann. En á sama tíma breytirðu húsnæði heima hjá þér og leigir það út og það er enginn sem tekur það út.“

Birgir segir að slökkvilið hafi nýlega sannreynt hvort unnt væri að skoða íbúðarhúsnæði með dómsúrskurði, en slíkt ákvæði er í núverandi lögum. Slökkvilið fór fram á slíkan dómsúrskurð til að gera prófmál úr því.

„Og úrskurður dómarans er að það gangi ekki upp. Að lögin séu ekki nægilega skýr.“

RÚV – Ragnar Visage

Von á drögum annars starfshópsins innan skamms
Þegar innviðaráðherra skipaði starfshópana tvo til að vinna tillögur um úrbætur á brunavörnum áfram stóð til að þeirri vinnu lyki í júní 2022. Henni er hins vegar enn ekki lokið. Birgir segist vissulega hafa viljað að þetta tæki skemmri tíma.

„Hins vegar eru ýmis flækjustig í kringum þetta sem þarf auðvitað að leysa úr. Ég held að það sé betra að þetta sé unnið vel og að það komi þá góð niðurstaða.“

Hann kveðst vona að vinnan gangi hratt fyrir sig héðan af.

Samkvæmt upplýsingum frá innviðaráðuneytinu eru drög annars starfshópsins væntanleg í samráðsgátt innan skamms. Þórmundur Jónatansson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, segir að verkefnið sé viðamikið og að í upphafi hafi of stuttur tími verið áætlaður í það.

Heimild: Ruv.is