Framkvæmdir við 40 stúdentaíbúðir í tveimur húsum við Fjarðastræti á Ísafirði hafa gengið að vonum þrátt fyrir ávenjulegar frosthörkur í vetur að sögn Halldórs Halldórssonar, formanns stjórnar Stúdentagarðanna og eru í meginatriðum samkvæmt verkáætlun.
Búið er að steypa sökkla fyrir báðum húsum og plötu á eystra húsinu og einingar frá SEVE í Lettlandi eru komnar vestur. Um er að ræða gáma sem fluttir voru á sjö trukkum. Fimm manna vinnuhópur frá fyrirtækinu er kominn og verður farið í að reisa einingarnar og svo að vinna innivinnu svo sem flísaleggja og leggja gólfefni. Þegar mest verður um að vera verða 25 manns að störfum frá SEVE.
Halldór segir að planið sé að hægt verði að flytja inn í annað húsið í september og fyrir jól í því síðara en stjórnin mun hittast næstu daga og fara yfir verkáætlunina.
Tuttugu íbúðir eru í hvoru húsi, sex einstaklingsíbúðir á neðri hæð og 14 heldur stærri íbúðir á efri hæð, sem geta hentað sambýisfólki.
Heildarkostnaður við framkvæmdirnar er um 1.050 milljónir króna.
Heimild; BB.is