Home Fréttir Í fréttum Dæmd til að greiða þrotabúi 86 milljónir sem þau tóku út í...

Dæmd til að greiða þrotabúi 86 milljónir sem þau tóku út í reiðufé

138
0
Annar dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur, hinn í Héraðsdómi Reykjaness. RÚV – Ragnar Visage

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi þrjá fyrrverandi stjórnendur gjaldþrota fyrirtækis til að greiða þrotabúinu 86 milljónir króna vegna ólögmætra lánveitinga. Tveir stjórnendanna voru nýlega sakfelldir fyrir skattalagabrot.

<>

Þegar fyrirtækið Brotafl fór á hausinn 2017 var mikil óreiða í bókhaldi félagsins jafnt sem fjármálum. Bæði skiptastjóri og yfirvöld höfðuðu mál gegn stjórnendum fyrirtækisins sem hafa hlotið tvo dóma það sem af er ári.

Þrír fyrrverandi stjórnendur verktakafyrirtækisins fengu á sig dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Fólkið var dæmt til að greiða þrotabúi fyrirtækisins samtals 86 milljónir króna en skiptastjóri hafði krafist 300 milljóna.

Skiptastjóri taldi að tveir stofnendur fyrirtækisins og sambúðarkona annars þeirra hefðu ásamt æskuvini eins þeirra gefið út tilhæfulausra reikninga sem fyrirtækið hefði verið látið borga stjórnendum til hagsbóta. Dómara þótti ósannað að stjórnendur Brotafls hefðu fengið þessa peninga endurgreidda og sýknaði fólkið því af þessari kröfu skiptastjóra.

Gátu ekki sýnt fram á hvað varð um reiðuféð
Fólkið tók einnig háar fjárhæðir út í reiðufé sem það sagðist hafa notað í margvíslegar greiðslur fyrir Brotafl án þess að hafa nokkuð skriflegt um það. Fólkið gat ekki sýnt fram á að peningarnir hefðu verið notaðir í þágu fyrirtækisins. Þess vegna dæmdi dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur að peningagreiðslurnar væru í raun ólögmætar lánveitingar. Fasteign eins stjórnandans var kyrrsett til að tryggja greiðslu upp á rúmar 60 milljónir.

Reikningarnir umdeildu voru gefnir út í nafni fjögurra fyrirtækja, hvers á fætur öðru eins og segir í dómnum. Í hvert skipti sem skattyfirvöld lokuðu virðisaukaskattsnúmerum félags tók það næsta við, allt þar til skatturinn hóf rannsókn á Brotafli.

Sambýlisfólk dæmt í öðru máli
Í febrúar kvað Héraðsdómur Reykjaness upp annan dóm vegna brota í starfsemi Brotafls. Sá dómur virðist ekki hafa birtur en vísað er í hann í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. Þar var ákært fyrir útgáfu rangra og tilhæfulausra reikninga fyrir á bilinu 152 til 763 milljónir vegna verka sem ekki voru unnin og starfsmanna sem aldrei voru til, samkvæmt ákæru.

Tveir fyrrverandi stjórnendur voru sakfelldir en fréttastofa hefur ekki upplýsingar um refsingu þeirra. Þeir stjórnendur eru sambýlisfólk, annar stofnenda Brotafls og kona hans. Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að þau hefðu farið með daglegan rekstur fyrirtækisins. Að auki hefði konan séð um allt bókhald fyrirtækisins. Hún var þó aldrei skráð sem stjórnandi.

Heimild: Ruv.is