Íslandsbankahúsið við Kirkjusand verður rifið á vormánuðum, fullyrða eigendur hússins, sem nú hefur staðið autt og ónýtt í um sjö ár. Íbúar á svæðinu fagna þeim fyrirætlunum, þó þeir hafi heyrt slíkar fullyrðingar áður.
Íbúar í nágrenni við Kirkjusandsreitinn nærri Laugardal í Reykjavík furða sig á aðgerðaleysi í tengslum við myglað hús Íslandsbanka og kalla eftir að skipulagsyfirvöld axli ábyrgð. Eigendur hússins fullyrða að málið sé að komast á skrið.
Lítið sem ekkert virðist hafa verið gert í tengslum við Íslandsbankahúsið, sem hefur staðið autt í sjö ár, þrátt fyrir að ítrekað sé því lýst yfir að nú eigi að rífa það. Á meðan fær myglað húsið að grotna niður og íbúar í hring eru orðnir þreyttir á aðgerðaleysinu.
„Þetta er ófremdarástand og búið að vera í nokkuð mörg ár,“ segir Björn M. Björgvinsson, formaður húsfélagsins að Kirkjusandi 1,3 og 5.
„ Við viljum bara sjá þetta niðurrif sem allra allra fyrst,“ segir Gunnar Ingi Gunnarsson, formaður húsfélagsins að Laugarnesvegi 87-89.
Niðurrifi frestað trekk í trekk
Þannig hefur staðið til árum saman að rífa húsið, svo hefur það frestast, og frestast lengur, það hefur verið efnt til hönnunarsamkeppni á Kirkjusandsreitnum og síðustu vendingar voru í september í fyrra, fyrir sjö mánuðum, þegar íbúar fengu kynningu á nýju deiliskipulagi.
„Það var búið að samþykkja deiliskipulag fyrir þónokkru síðan og það átti að vera blönduð þjónusta og atvinnustarfsemi hérna og okkur leist ágætlega á það. Nú er búið að breyta því, nú að bara að vera íbúabyggð og það er búið að auka íbúðamagnið um 600 til 700 manns,“ segir Gunnar.
„Auðvitað hefðum við viljað að skipulagsyfirvöld í borginni taki svolítið ábyrgð og ákvörðun með hliðsjón af því hvað íbúum þykir henta – ekki endilega okkar íbúum heldur þeim sem eiga að búa hérna,“ bætir Björn við.
Þessum ábendingum og fleirum var komið á framfæri í kjölfar íbúafundarins. Það sem íbúar vilja hins vegar núna, líkt og síðustu ár, er að losna við húsið enda fylgi því bæði hættur og sóðaskapur.
„Þetta hefur verið ófremdarástand, þarna hefur verið hústökufólk inni og unglingar að leika sér á hættulegum stöðum,ׅ“ segir Gunnar.
Þeir benda á brotnar rúðurnar á húsinu, gler og rusl á víð og dreif, og að dæmi séu um að börn hafi prílað upp á húsið.
„Við ályktuðum á haustmánuðum um að flýta niðurrifi þessara húsa, því hefur ekki verið svarað og ekki gefið neitt svar afdráttar um það hvort þetta verður eða ekki,“ útskýrir Björn.
Samkvæmt upplýsingum frá Íslandssjóðum, sem eiga húsið, eru öll leyfi fyrir niðurrifi komin og gögnin komin á borð Skipulagsstofnunar. Þar af leiðandi eigi að vera hægt að hefjast handa á vormánuðum.
„Þetta er reitur sem þarf bara að fara að byrja framkvæmdir á svo uppbygging á þessu svæði standi ekki yfir í áratugi.“
Heimild: Ruv.is