Svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi til fjörutíu ára segir enga sátt ríkja í fjórðungnum um gerð Fjarðarheiðarganga og telur að alþingismenn hafi verið blekktir til að setja þau í forgang. Talsmaður Seyðfirðinga segir málið hins vegar útrætt og niðurstaða liggi fyrir um að þau verði næstu jarðgöng á Íslandi.
Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Ísland í dag. Framundan er hjá Alþingi að taka ákvörðun um dýrustu og lengstu veggöng Íslands, fimmtíu milljarða króna göng undir Fjarðarheiði milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar.
Sú stefna að 13,3 kílómetra löng Fjarðarheiðargöng verði næst í röðinni er ítrekuð í nýkynntri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hvort Alþingi fallist á þá stefnumörkun og hvænær hafist verður handa skýrist væntanlega fyrir vorið við afgreiðslu samgönguáætlunar frá Alþingi.
Einar Þorvarðarson, sem var umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar á Austurlandi í fjóra áratugi, segist hafa miklar efasemdir.
„Þetta eru allt of löng göng, dýr og áhættusöm göng. Það eru aðrar lausnir sem eru miklu betri. Það verður aldrei neitt samkomulag um það að gera Fjarðarheiðargöng,“ segir Einar.
Jón Halldór Guðmundsson, sem situr í heimastjórn Seyðisfjarðar fyrir Múlaþing, vitnar til þess að nefnd samgönguráðherra hafi árið 2019 skilað skýrslu um valkostina.
„Eftir bara mikla og góða vinnu skilaði hún bara niðurstöðum og þá voru Fjarðarheiðargöng næstu göng. Og svo á að tengja okkur áfram suður,“ segir Jón Halldór.
„Niðurstaða nefndarinnar var fáránleg. Í þessari nefnd voru fimm aðilar skipaðir. Þar af voru tveir Seyðfirðingar með fyrirfram mótaðar skoðanir. Þannig að þeir réðu alveg ferðinni í nefndinni,“ segir Einar.
-Vita alþingismenn ekki hvað þeir eru að gera?
„Það held ég ekki. Ég held að þeir hafi verið blekktir,“ svarar Einar.
Þannig segir hann kostnað hafa verið verulega vanmetinn í skýrslu nefndarinnar. Til að byrja með hafi hann verið sagður 30 til 35 milljarðar króna.
„Ég held að kostnaðurinn sé núna kominn upp í 50 til 60 milljarða. Þannig að það var verið að reyna svona að jafnvel að blekkja fólk með því að halda kostnaðinum niðri, gefa í skyn að göngin væru miklu ódýrari heldur en þau verða í raun og veru.
Svo var líka gefið í skyn að þetta væri samkvæmt vilja íbúa hér á Austurlandi og fyrirtækja hér á Austurlandi. Það er bara alls ekki rétt.
Þannig að það var verið að blekkja almenning og Alþingi líka,“ segir Einar.
Sigfús Vilhjálmsson á Brekku, síðasti oddviti Mjóafjarðarhrepps, segir mjög sorglegt hvernig jarðgangamálið æxlaðist. Göng undir Fjarðarheiði núna séu ekki rétt forgangsröðun.
Hringtenging byggðanna um Mjóafjörð hefði verið eðlilegt framhald af atvinnuuppbyggingunni í Reyðarfirði. Rætt hafi verið um Norðfjarðargöng sem fyrsta áfangann í tengingu áfram til Seyðisfjarðar.
Seyðfirðingurinn Jón Halldór telur að ekki verði hvikað frá þegar markaðri stefnu um göng undir Fjarðarheiði.
„Þetta eru næstu göng á samgönguáætlun á Íslandi. Við erum bara bjartsýnir á að þetta fari í gegn,“ segir Jón Halldór.
Heimild: Visir.is