
Verktakar hafa tvöfaldað hverja krónu í kostnaði við nýbyggingar. Okur er afstætt hugtak að sögn hagfræðings.
Fasteignaverð á Íslandi hefur hækkað um rúmlega 100 prósent að raunvirði á einum áratug. Það er 60 prósentum meiri hækkun en meðaltal OECD-landanna. Álagning á byggingarkostnað nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu er í methæðum.
Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM, segir að fasteignaverð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hafi aldrei mælst hærra í hlutfalli við laun en á fjórða ársfjórðungi ársins 2022. Verð 120 fermetra íbúðar á höfuðborgarsvæðinu jafngildi nú rúmlega 13 árstekjum einstaklinga að meðaltali.
Fermetraverð í sölu nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu var rúmlega 830 þúsund krónur á fjórða ársfjórðungi ársins 2022. Meðalálagning á seldar íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu í lok árs 2022 var rúmlega 100 prósent samanborið við rúmlega 50 prósent fyrir nokkrum árum.
„Þetta kemur fram í mikilli umframarðsemi í byggingariðnaði,“ segir Vilhjálmur.
„Þetta er markaðsverð, þannig að það hafa fundist kaupendur,“ svarar hann spurður hvort álagningin beri keim af okri.

Heimild: Frettabladid.is