Home Fréttir Í fréttum Tregða tefur nauðsynlegar orkuframkvæmdir

Tregða tefur nauðsynlegar orkuframkvæmdir

48
0
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. RÚV – Guðmundur Bergkvist

Forstjóri Landsvirkjunar segir að á köflum virðist sjálfstæður vilji stofnana koma í veg fyrir nauðsynlegar orkuframkvæmdir á Íslandi. Einnig að stjórnvöld hafi ekki markað sér stefnu um hvað mikla orku þurfi hér á landi á næstu áratugum.

<>

Mikil spurn er eftir orku á Íslandi. Bæði frá núverandi kaupendum og ekki síður frá nýjum aðilum. Því hefur Landsvirkjun þurft að vísa áhugasömum kaupendum frá. Landsvirkjun hefur róið að því öllum árum að afla tilskilinna leyfa fyrir frekari uppbyggingu, sem hefur verið í undirbúningi í ár og áratugi, en lítið hefur gengið.

En er tregða innan stofnana að tefja fyrir? „Já, okkur finnst það, þegar við horfum til baka. Sérstaklega núna kannski, eins og leyfisveitingaferlið í Hvammsvirkjun. Þá er nánast öll þau skref sem við þurfum að fara í gegnum. Þau taka mun lengri tíma heldur en eðlileg málsmeðferð gefur til kynna að ætti að taka,“ segir Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar.

Er þetta rétta fólkið?

Hörður vill ekki benda á ákveðnar stofnanir umfram aðrar, en nefnir rammaáætlun, „… þá sjáum við að undanfarin ár, að það er stór hópur þeirra sem setið hefur þar í verkefnisstjórninni, hefur bara úttalað sig um það að það væri búið að virkja nóg á Íslandi og þá spyr maður sig; er það rétta fólkið til að meta þessi verkefni?“

Hvað þarf mikið af orku?

Hörður segir að stjórnvöld hafi ekki ákveðið, fyrir sitt leyti, hversu mikið þurfi að virkja og hversu mikilli orku samfélagið þurfi á að halda. „En bæði Orkustofnun og síðan stjórnvöld hafa ekki talað skýrt út um það, til dæmis hvað mikla orku þarf samfélagið á að halda, næstu 10 árin, næstu 20 árin, næstu 30 árin. En ef að þetta liggur ekki ljóst fyrir, þá verður öll umræða um þessi mál mjög ómarkviss. “

Heimild: Ruv.is