Home Fréttir Í fréttum Bændur ættu að losa sig við frauðplast úr fjárhúsþökum

Bændur ættu að losa sig við frauðplast úr fjárhúsþökum

131
0
Slökkviliðsmaður sýnir hvernig frauðplast logar glatt, bráðnar og logandi dropum rignir niður. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Brunavarnir í gripahúsum eru víða í ólestri. Frauðplast í lofti margra fjárhúsa getur valdið stórhættu ef eldur kemst í það.

<>

Það er ekki langt síðan sorglegur eldsvoði varð á bænum Unaósi í Hjaltastaðarþinghá. Þar fórust um 260 gripir, aðallega kindur. Slökkvilið Múlaþings barðist við eldinn og vill vekja fólk til umhugsunar um brunavarnir í gripahúsum.

Til að koma skilaboðunum áleiðis notum við frauðplast þrætt upp á tein. Þegar eldur er borinn að plastinu logar glatt og logandi dropar falla niður. Mjög algengt er að óvarið og eldfimt frauðplast sé til einangrunar í fjárhúsþökum þó slíkt hafi verið bannað lengi.

„Frauðplast er mjög eldfimt og þegar það brennur þá dropar úr því og það rignir í rauninni eldi úr frauðplastinu. Þá rignir elddropum sem lenda svo á því sem er undir og útbreiðslan á eldinum verður ofboðslega hröð og hitinn alveg ofboðslega mikill,“ segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri Múlaþings.

Þá mættu bændur setja upp brunaboða í húsunum og huga að því hvernig hægt væri að hleypa fénu út í flýti. Bæta þurfi raflagnir í fjárhúsum sem stundum eru gamlar og frumstæðar. Hlöður séu víða orðnar að tækjageymslum og því fylgi eldhætta og krafa um brunahólfun.

En góð byrjun væri að losa sig við frauðplastið eða klæða það af með eldtefjandi plötum. Haraldur segir að krafa um slíkt hafi lengi verið í byggingarreglugerð. Elsta ákvæðið sem við finnum er frá 1967 og sambærileg ákvæði eru í gildandi reglum, sem eru brotnar víða. „Frauðplastið er bara óvarið. Það hefur bara verið sett upp á milli sperra í þökum og er óvarið þar. Þannig að það er ekki frágangur eins og hann á að vera,“ segir Haraldur Geir.

Heimild: Ruv.is