Home Fréttir Í fréttum Hundrað milljóna króna uppbygging

Hundrað milljóna króna uppbygging

210
0
Húsið var reist árið 1890.

Félagið Þingeyri ehf, í eigu lögmannsins Kjartans Ingvarssonar, hefur keypt hina sögufrægu Gramsverslun á Þingeyri. Verslunin, sem var byggð af danska kaupmanninum Niels C. Gram árið 1890, hefur staðið auð og verið í niðurníðslu undanfarin ár. Hún var í eigu Ísafjarðarbæjar sem hefur leitað að áhugasömu fólki til að taka við byggingunni.

<>

„Ég er mjög hrifinn af Vestfjörðum og hef áhuga á endurbyggingu gamalla húsa,“ segir Kjartan, sem er þó ekki Vestfirðingur sjálfur. „Ég hef verið á Þingeyri og horft á þetta hús grotna niður. Það er mikilvægt að einhver taki húsið aftur í fangið og hefji það upp til vegs og virðingar.“

Kjartan fær húsið án endurgjalds en með skilyrðum um að gera það upp. Áætlaður kostnaður er um 100 milljónir króna að lágmarki. „Það þarf að endurnýja húsið hátt og lágt í samráði við Minjastofnun. Burðarvirkið er ágætt en það þarf að endurnýja útveggi, klæðningu, setja lagnir og skólp og allan pakkann. Í sjálfu sér er þetta fokhelt hús,“ segir Kjartan.

Vonast hann til að skrifað verði undir afsalið í næstu viku og þá getur undirbúningur að framkvæmdum hafist strax. Þetta muni hins vegar taka tíma.

Gert er ráð fyrir fjölþátta starfsemi í húsinu. Á jarðhæð verður gestastofa þjóðgarðsins, upplýsingamiðstöð, verslun og aðstaða fyrir fólk að hittast. Á miðhæðinni verður sýningarrými og skrifstofur í risi.

Heimild: Frettabladid.is