Home Fréttir Í fréttum Suðurnesjalína öruggari norðan við Reykjanesbraut

Suðurnesjalína öruggari norðan við Reykjanesbraut

91
0
RÚV – Ragnar Visage

Prófessor í eldfjallafræði telur óráðlegt að leggja nýja Suðurnesjalinu samhliða þeirri sem fyrir er. Hann segir áhættuna minni ef farið verður með nýju línuna norður fyrir Reykjanesbraut.

<>

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets og Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri í Vogum ræddu í Kastljósi í kvöld staðsetningu Suðurnesjalínu 2 og hvort línan ætti að vera í jörðu eða á lofti í ljósi nýrra aðstæðna á Reykjanesi eftir að eldsumbrot hófust þar eftir nærri 800 ára hlé.

Einnig var rætt við Þorvald Þórðarson prófessor í eldfjallafræði. Hann sagðist ekki taka afstöðu til staðsetningar línunnar, en hans ráð væri að vera með línuna sem fjærst virkasta svæðinu sem er hryggurinn á Reykjanesskaganum.

„Og þegar þú ert komin kannski út í jaðrana þá skipta stuttar vegalengdir máli. Til dæmis það að ef við erum sunnan við Reykjanesbrautina, þar eru margar sprungur og sumar þeirra voru virkjar tiltölulega nýlega. Ef þú ferð norður fyrir veginn þá ertu með örfáar sprungur og þær hafa ekki verið virkar í mjög langan tíma.“

Þorvaldur segir ef strengur er settur í jörðu og hraun flæðir yfir líði ekki langur tími þar til hann verður óvirkur. Eins þurfi að taka tillit til þess hvort jarðstrengur sé lagður á sprungusvæði því hreyfingar í sprungunni geti slitið jarðstrengi. Landsnet vill leggja nýju línuna skammt frá þeirri sem fyrir er. Aðspurður um hvað honum finnist um það, segir Þorvaldur.

„Minn hugsunarháttur er alltaf að vera með sem fæst egg í sömu körfunni og dreifa áhættunni. En við verðum líka að taka það með inn í myndina hvað er ásættanleg áhætta og það er mat sem að aðrir aðilar verða að taka.

Heimild: Ruv.is