Home Fréttir Í fréttum EFLA eina fyrir­tækið sem upp­fyllti gæða­kröfur

EFLA eina fyrir­tækið sem upp­fyllti gæða­kröfur

260
0
Steinþór segir um­fang verk­efna í Sví­þjóð hafa vaxið gríðar­lega á síðustu árum. Fréttablaðið/Samsett mynd

EFLA fékk ný­verið stóran ráð­gjafa­samning fyrir Svenska kraftnät í Sví­þjóð sem fellst í því að hanna nýjar mastra­týpur fyrir raf­orku­flutnings­kerfið þar í landi. Fleiri sænskar verk­fræði­stofur buðu í verk­efnið en EFLA var eina fyrir­tækið sem upp­fyllti þær miklu gæða­kröfur sem Svenska kraftnät setti fram.

<>

EFLA stofnaði fyrir­tæki í Sví­þjóð 2014 og hlaut sinn fyrsta ramma­samning við Svenska kraftnät 2016. Fyrir­tækið er í dag með þrjá ramma­samninga í gildi í Sví­þjóð og eru hinir tveir ramma­samningar fyrir hönnun á nýjum há­spennu­línum.

Stein­þór Gísla­son, sviðs­stjóri orku­sviðs hjá EFLU og sá sem leiðir verk­efnið, segist mjög stoltur af þessum árangri. „Á­stæðan fyrir því að við upp­fyllum þessar gæða­kröfur er sú að við höfum stóran og reynslu­mikinn starfs­hóp sem hefur af­burða sér­þekkingu í þessum mjög sér­hæfða geira.“

Verk­efnið er hluti af nýjasta samningnum, Rama­v­tal konstruktioner, sem EFLA fékk á liðnu ári og snýst um hönnun á möstrum og undir­stöðum. EFLA er eina fyrir­tækið utan Sví­þjóðar sem fékk þann samning og fékk einnig hæsta gæða­ein­kunn allra þeirra sem sóttu um.

EFLA sá um for­hönnun nýju mastranna frá árinu 2020 og lauk þeirri vinnu seint á síðasta ári. Nýi samningurinn, sem tók gildi í þessum mánuði og gildir út árið 2024, snýst um deili­hönnun og gerð smíða­teikninga fyrir nýjar mastra­gerðir. Starfs­fólk EFLU á Ís­landi auk starfs­fólks dóttur­fé­laga EFLU í Sví­þjóð, Noregi og Pól­landi munu koma til með að vinna við verk­efnið.

„Vinna okkar í Sví­þjóð eins­korðast við ráð­gjöf, eftir­lit og verk­efnis­stjórnun tengt upp­byggingu á raf­orku­flutnings­kerfi Sví­þjóðar. Okkur hefur gengið mjög vel að ná í verk­efni í öllum þremur ramma­samningunum og um­fang verk­efna okkar í Sví­þjóð hefur vaxið gríðar­lega á síðustu árum,“ segir Stein­þór.

Heimild: Frettabladid.is