EFLA fékk nýverið stóran ráðgjafasamning fyrir Svenska kraftnät í Svíþjóð sem fellst í því að hanna nýjar mastratýpur fyrir raforkuflutningskerfið þar í landi. Fleiri sænskar verkfræðistofur buðu í verkefnið en EFLA var eina fyrirtækið sem uppfyllti þær miklu gæðakröfur sem Svenska kraftnät setti fram.
EFLA stofnaði fyrirtæki í Svíþjóð 2014 og hlaut sinn fyrsta rammasamning við Svenska kraftnät 2016. Fyrirtækið er í dag með þrjá rammasamninga í gildi í Svíþjóð og eru hinir tveir rammasamningar fyrir hönnun á nýjum háspennulínum.
Steinþór Gíslason, sviðsstjóri orkusviðs hjá EFLU og sá sem leiðir verkefnið, segist mjög stoltur af þessum árangri. „Ástæðan fyrir því að við uppfyllum þessar gæðakröfur er sú að við höfum stóran og reynslumikinn starfshóp sem hefur afburða sérþekkingu í þessum mjög sérhæfða geira.“
Verkefnið er hluti af nýjasta samningnum, Ramavtal konstruktioner, sem EFLA fékk á liðnu ári og snýst um hönnun á möstrum og undirstöðum. EFLA er eina fyrirtækið utan Svíþjóðar sem fékk þann samning og fékk einnig hæsta gæðaeinkunn allra þeirra sem sóttu um.
EFLA sá um forhönnun nýju mastranna frá árinu 2020 og lauk þeirri vinnu seint á síðasta ári. Nýi samningurinn, sem tók gildi í þessum mánuði og gildir út árið 2024, snýst um deilihönnun og gerð smíðateikninga fyrir nýjar mastragerðir. Starfsfólk EFLU á Íslandi auk starfsfólks dótturfélaga EFLU í Svíþjóð, Noregi og Póllandi munu koma til með að vinna við verkefnið.
„Vinna okkar í Svíþjóð einskorðast við ráðgjöf, eftirlit og verkefnisstjórnun tengt uppbyggingu á raforkuflutningskerfi Svíþjóðar. Okkur hefur gengið mjög vel að ná í verkefni í öllum þremur rammasamningunum og umfang verkefna okkar í Svíþjóð hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum,“ segir Steinþór.
Heimild: Frettabladid.is