Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, óttast að stýrivaxtahækkun Seðlabankans muni leiða til samdráttar í framkvæmdum og segir að hækkunin muni koma illa við fyrirtæki og almenning í landinu.
„Hættan er sú að hærri vextir dragi úr framkvæmdum sem er verulega slæmt mál. Rót verðbólgunnar sem við glímum nú við og verðhækkanir á fasteignamarkaði eru vegna þess að það var ekki nógu mikið byggt. Það þýðir að ef illa fer þá erum við komin í vítahring sem gerir stöðuna verri.“
Hann segir það mikil vonbrigði að verðbólgan sé þrálátari en Seðlabankinn áður taldi og að Seðlabankinn sé í raun að boða aðra vaxtahækkun um leið og vextir eru hækkaðir núna.
„Síðasta haust mátti skilja seðlabankastjóra þannig að síðasta vaxtahækkunin væri komin. Skilaboðin eru þannig misvísandi sem er mjög slæmt vegna þess að í heimi seðlabanka þá skiptir trúverðugleikinn öllu máli,“ segir Sigurður.
Hann segist aftur á móti ekki áhyggjufullur og bendir á að þrátt fyrir samdrátt á fasteignamarkaði hafi hann verið á miklum yfirsnúningi seinustu tvö árin. Þar að auki hafi saga byggingariðnaðarins undanfarna áratugi einkennst af miklum sveiflum, en Sigurður segist fylgjast grannt með þróun mála.
Heimild: Frettabladid.is