Home Fréttir Í fréttum Arnarnesvegur annað af tveimur stóru verkefnum Vegagerðarinnar í ár

Arnarnesvegur annað af tveimur stóru verkefnum Vegagerðarinnar í ár

564
0

Nokkrar stórar vega- og samgönguframkvæmdir eru framundan á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári þar sem m.a. á að fara í lagningu Arnarnesvegar um Vatnsendahæð og tengja við Breiðholtsbraut. Þetta er annað af tveimur stærstu verkefnum Vegagerðarinnar á árinu, en verkefnið er í samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

<>

Þetta er síðasti áfangi Arnarnesvegar, tenging frá Rjúpnavegi og yfir Vatnsendahæð að Breiðholtsbraut þar sem koma á fyrir mislægum gatnamótum. Áætlaður kostnaður verksins er um 5 milljarðar, en það fer í útboð fljótlega og munu framkvæmdir sjást þar mjög fljótlega.

Hin stóra framkvæmd Vegagerðarinnar er breikkun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi út í Hvassahraun. Kostnaður við það verkefni er um 6 milljarðar.

Arnarnesvegur við Breiðholtsbraut þar sem koma á fyrir mislægum gatnamótum.

Fossvogsbrúin frestast
Þá liggur fyrir að fyrstu framkvæmdir við borgarlínuna munu líklega ekki hefjast fyrr en eftir næstu áramót, en fyrir rúmlega ári síðan var gert ráð fyrir að framkvæmdir við brú yfir Fossvog frá Kópavogi (Kársnesinu) og yfir í Reykjavík gætu hafist núna í ársbyrjun.

Verkefnið er stórt og flækjustig framkvæmdanna er töluvert m.a. þarf að meta verkefnastöðu og möguleika verktaka til að bjóða í verkið á þeim tíma sem útboðið fer fram og slíkar kannanir eru nú í gangi hjá Vegagerðinni.

Undirbúningurinn er langt kominn samkvæmt Vegagerðinni, en áætlað er að hönnunarvinna Fossvogsbrúar þurfi líklega út þetta ár og útboð vegna framkvæmda gæti því komið til öðrum hvorum megin við næstu áramót

Göngu- og hjólastígar og ný brú
Af öðrum verkefnum á vegum Vegagerðarinnar er tengjast Kópavogi á þessu ári er það helst að frétta að vinna á að hefjast við hjólastíga í efri hluta Elliðaárdals upp að Rjúpnavegi, en þessar framkvæmdir haldast að einhverju leyti í hönd við framkvæmdir við Arnarnesveg. Þá á að gera nýja göngu- og hjólabrú yfir Dimmu, sem einmitt tengist fyrrnefndum stígum.

Með lagningu Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut er einnig gert ráð fyrir aðskildum göngu- og hjólastíg. Á hann meðal annars að fara yfir Breiðholtsbrautina og tengjast inn á stígakerfið í Elliðaárdal, bæði upp í Fellahverfi og niður í Dimmu, þar sem ný brú á að taka við fyrri brú yfir heitavatnsstokk, en þessi verkefni eru einnig í samgöngusáttmálanum.

Forsíðumynd: Arnarnesvegurinn mun liggja frá Breiðholtsbraut yfir Vatnsendahæð og tengjast inn á núverandi Arnarnesveg við Rjúpnaveg. Á þessari mynd er Breiðholts- brautin hægra megin og er hverfið fyrir ofan Arnarnesveginn Seljahverfi í Breiðholti, en hverfið fyrir neðan hluti af Þingahverfi í Kópavogi og fyrirhugaðri uppbyggingu á Vatsnendahæð.

Heimild: KGP.is