Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hafnar við nýjan Fljótaveg án fjárfesta

Framkvæmdir hafnar við nýjan Fljótaveg án fjárfesta

198
0
RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Framkvæmdir eru hafnar við nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót sem styttir hringveginn um tólf kílómetra og fækkar einbreiðum brúm. Ekki hefur enn tekist að fá einkaaðila til að fjármagna verkið að hluta.

<>

Í Skógey í Hornafirði hafa risið miklar vinnubúðir enda eiga hátt í 70 manns eftir að vinna við nýjan Fljótaveg þegar framkvæmdir komast á fullan skrið.

Styttir hringveginn og vegalengdir í stóru sveitarfélagi
Nýi vegurinn er umdeildur en samtökin Hollvinir Hornafjarðar börðust fyrir því að hann yrði innar svo hann spillti ekki útsýni, kartöflurækt og æðarvarpi en bæjaryfirvöld vildu halda sig við að fara yfir Fljótin.

„Áhrifin af nýjum Fljótavegi eru í rauninni byltingarkennd fyrir okkur. Ekki bara styttist leiðin til okkar um heila 12 kílómetra, heldur eru þrjár einbreiðar brýr sem hverfa. Og þetta færir samfélagið líka miklu nær hvort öðru vegna þess að við erum stórt og víðfeðmt sveitarfélag,“ segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Enn stefnt á að vegurinn verði að hluta í eigu fjárfesta
Vegurinn kostar á núvirði 6,3 milljarða og á að vera fyrsta samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila við byggingu stórra samgöngumannvirkja. Erfiðlega gekk að fá lífeyrissjóði að borðinu áður en mannvirkið er risið.

En þegar vegurinn verður tilbúinn verður reynt að fá fjárfesta inn í verkefnið sem fengju sitt til baka í vegnum veggjöld. Það er Ístak sem vinnur verkið. „Við erum að fara að leggja 19 kílómetra nýjan þjóðveg sem mun stytta núverandi hringveg um 12 kílómetra. Steypa fjórar tvíbreiðar brýr og gera aðra 9 kílómetra tengivegi,“ segir Aron Örn Karlsson, staðarstjóri Ístaks í Hornafirði.

Mesta áskorunin að brúa Hornafjarðarfljótið sjálft
Margir verða fegnir að losna við gömlu, löngu, einbreiðu brúna yfir Hornafjarðarfljót sem er svo hæðótt að bíllinn fer á stökk. Ný brú verður byggð úti í fljótunum.

„Mesta áskorunin verður að gera brúnna yfir Hornafjarðarfljótið sem verður 250 metra löng og það þarf að fergja brúarstæðið og koma efninu út í fljótið og efnið sem við erum að vinna með er sandur. Þannig að það er svolítið challenge í því,“ segir Aron Örn.

Stefnt er á að klára veginn í byrjun desember árið 2025.

Heimild: Ruv.is