Byggingu nýrrar álmu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli hefur seinkað um níu mánuði. Ný flugstöð verður ekki tilbúin á þessu ári þegar fjögur flugfélög bjóða upp á millilandaflug um Akureyrarflugvöll.
Í lok sumars var lokið við að steypa gólfið í 1000 fermetra stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri. Miklar tafir hafa orðið við framkvæmdina þar sem erfiðlega hefur gengið að fá til landsins stálgrind og annað efni í húsið. Síðast stóð til að efnið kæmi í nóvember, en það gekk ekki eftir.
Ný flugstöð tilbúin í maí 2024
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, býst við frekari töfum. „Ég býst við því að stálið í bygginguna komi núna á vormánuðum og þá mun ekki taka langan tíma að reisa bygginguna. Við fáum hingað undirverktaka frá Póllandi sem er bæði að framleiða stálið og mun síðan sjá um uppsetninguna.“
Hún segir að verkefninu hafi nú seinkað um níu mánuði. Áætlað sé að byggingin, auk breytinga á núverandi flugstöð, verði tilbúin til notkunar í maí 2024.
Fjögur félög í millilandaflugi í sumar
Reiknað er með að fjögur flugfélög sinni reglubundnu millilandaflugi til og frá Akureyrarflugvelli í sumar og fljúgi tæplega 200 ferðir um völlinn á árinu.
Ljóst er að ný flugstöð verður ekki tilbúin fyrir alla þá umferð. „Nei það gerir það ekki. Og það er einfaldlega verið að reyna að raða komu- og brottfarartímum inn sem best hentar flugvellinum,“ segir Sigrún.
Þannig fljúgi tvö af þessum félögum kvöld og næturflug sem skarist þá ekki við innanlandsflugið. En þessu fylgi álag, alltaf sé viðbúið að það verði seinkanir og breytingar.
Því þurfi gott skipulag til að takast á við þessa flugumferð við núverandi aðstæður. „En það er verið að reyna að stilla þessu upp þannig að þetta virki í þessu takmarkaða húsnæði sem er.“
Malbikun á nýju flughlaði á leið í útboð
Stækkun flughlaðs á Akureyrarflugvelli var boðin út um svipað leyti og ný álma við flugstöðina. Framkvæmdir þar ganga vel, segir Sigrún, en vinnu við efra burðarlag ljúki í vor.
Nú sé verið að yfirfara útboðsgögn, fyrir lagnir og malbikun, sem verði send út í þessum mánuði. Þær framkvæmdir séu áætlaðar í sumar. „Flughlaðið ætti að vera tilbúið í lok ágúst, í síðasta lagi, ef veður og aðstæður leyfa.“
Heimild: Ruv.is