Home Fréttir Í fréttum Skipulagslýsing fyrir hluta Ártúnshöfða í kynningu

Skipulagslýsing fyrir hluta Ártúnshöfða í kynningu

185
0
Skipulagssvæðið er um 5,8 hektarar og afmarkast af Bíldshöfða til suðurs, stoðvegg til norðurs, Breiðhöfða til austurs og Þórðarhöfða til vesturs. Arctic Images/Ragnar Th

Samþykkt var að kynna skipulagslýsingu fyrir nýtt deiliskipulag Elliðaárvogs-Ártúnshöfða svæðis 7 í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í morgun.

<>

Um er að ræða svæðið í kringum B.M. Vallá en núna er ekkert deiliskipulag í gildi þar. Tilgangur lýsingarinnar er meðal annars að tryggja aðkomu almennings og hagsmunaaðila að skipulagsferlinu, auka gagnsæi og stuðla að meiri gæðum við skipulagsgerð.

Skipulagssvæðið er um 5,8 hektarar og afmarkast af Bíldshöfða til suðurs, stoðvegg til norðurs, Breiðhöfða til austurs og Þórðarhöfða til vesturs.

Uppbyggingin verður áfangaskipt en gert er ráð fyrir blandaðri byggð. Stærstur hluti verður íbúðarhúsnæði en einnig er gert ráð fyrir að þarna verði atvinnuhúsnæði, einkum á hluta götuhæða við Bíldshöfða og Breiðhöfða.

Byggingarmagn og hæðir húsa munu ráðast við gerð deiliskipulags og horft verður til markmiða aðalskipulags um sjálfbæra þróun og gæði byggða.

Markmið skipulagsvinnunnar

  • Að byggja upp vistvæna og fjölbreytta byggð í samræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2040.
  • Að stuðla að fjölbreyttri uppbyggingu sem meðal annars styður við fjölbreyttar samgöngur og markmið um uppbyggingu Borgarlínu.
  • Uppbygging og þróun sem tekur tillit til þriggja þátta sjálfbærni; samfélag, efnahagur og umhverfi.
  • Að deiliskipulagið hljóti vistvottun samkvæmt BREEAM-vistvottunarkerfinu, til þess að tryggja gæði uppbyggingar og byggðar.
  • Að skapa eftirsóknarvert, lifandi og skapandi umhverfi sem hvetur til mannlegra samskipta og blöndunar fjölbreyttra hópa.
  • Að skapa íbúðabyggð sem það sem áhersla er á gæði íbúða og almenningsrýma eins og varðandi birtu, útsýni og grænar lausnir.

Þetta þýðir að gætt verður að afstöðu bygginga og almenningsrýma gagnvart sól og ríkjandi vindáttum. Til viðbótar er lögð áhersla á grænar tengingar, gæði almenningsrýma og samþættingu opinna svæða við Fornalund. Fornilundur er gróinn og vel hirtur trjálundur í eigu og umsjón B.M. Vallár.

Skipulagsferlið

Fyrirhugað er að áfangaskipta deiliskipulagsgerðinni. Nú verður skipulagslýsing auglýst en í framhaldinu verður unnið að tillögu að deiliskipulagi. Stefnt er að samþykktarferli og gildistöku deiliskipulagsins veturinn 2023-2024.

Á kynningartíma skipulagslýsingarinnar verður umsagnaraðilum, hagsmunaaðilum og almenningi gefinn kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar sem að gagni geta komið við gerð skipulagsins. Hægt er að senda póst á skipulag@reykjavik.is.

Heimild: Reykjavik.is