Home Fréttir Í fréttum Vilja selja flugstöðina á Þingeyrarflugvelli

Vilja selja flugstöðina á Þingeyrarflugvelli

95
0
Undanfarin ár hefur flugbrautin aðeins verið opin að sumarlagi vegna skemmda í henni. Mynd: RÚV

Þingeyrarflugvöllur er skilgreindur sem varaflugvöllur fyrir Ísafjarðarflugvöll að sumri. Flugvöllurinn hefur þó lítið verið notaður síðustu ár og nú stendur til að selja flugstöðina.

<>

Fyrirhugað er að selja flugstöðina á Þingeyrarflugvelli vegna lítillar notkunar á síðustu árum og óhagstæðra lendingaraðstæðna. Bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar telja ótímabært að ræða söluna þar sem ekki liggur fyrir skýr framtíðasýn um notkun flugvallarins.

Lítil notkun og slæmar aðstæður ástæður sölutillögu
ISAVIA Innanlandsflugvellir hafa heimild í fjárlögum til að ráðstafa flugstöðinni á Þingeyrarflugvelli og hyggjast selja hana. Ísafjarðarbæ var boðið að kaupa hana , en afþakkaði.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallanna segir Þingeyrarvöll ekki henta til framtíðar fyrir Vestfirði vegna erfiðs aðflugs, vindstrengja og slæms ástands flugbrautar.

„Við höfum ekki haft starfsemi þarna í mörg ár og flugstöðin hefur staðið tóm og án rekstrar, þó hann sé ennþá skráður sem lendingarstaður þannig að mínu mati er það bara tímabært að taka ákvörðun um þetta, af eða á.“

Sigrún segir að ef ætlunin væri að koma flugvellinum aftur í gagnið þyrfti að ráðast í töluverðar framkvæmdir en fjármunir í það liggi ekki á lausu.

Vilja fyrst og fremst tryggja flugsamgöngur til fjórðungsins
Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir nauðsynlegt að ræða framtíð flugvallarins, áður en ákvörðun sé tekin um að selja húsið.

„Það liggur engin framtíðarsýn fyrir. Það hafa einhverjir kostir verið skoðaðir af flugvallarstæðum á Vestfjörðum en enginn afgerandi kostur komið fram og við leggjum bara á það áherslu að hér séu tryggar flugsamgöngur til fjórðungsins,“ segir Arna.

Þá hefur bæjarráð Ísafjarðarbæjar einnig lýst yfir áhyggjum af flugsamgöngum, enda hafi orðið nokkur þjónustuskerðing þar vestra á síðustu árum.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Mynd: Jóhannes Jónsson – RÚV

Heimild: Ruv.is