Home Fréttir Í fréttum Vilja sundlaug í miðjum Skerjafirði

Vilja sundlaug í miðjum Skerjafirði

216
0
Mynd: Kópavogsbær
Fjórar vinningstillögur að byggð á Kársnesi í Kópavogi voru kynntar í dag. Áfram er gert ráð fyrir brú yfir Skerjafjörð.

Keppnin er hluti af samnorrænni samkeppni sem nefnist Nordic Built Cities. Með henni á að efla nýsköpun og samkeppnishæfni Norðurlandanna í sjálfbærni í byggð. Kársnes var valið til að taka þátt í keppninni með fimm öðrum norrænum þéttbýlissvæðum.

<>

Í vinningstillögunum, sem fara nú áfram í næstu umferð norrænu keppninnar, er gert ráð fyrir nokkuð fjölbreyttu íbúðar-, iðnaðar- og verslunarsvæði. Meðal þess sem þar er lagt til að byggja er íþróttahús, yfirbyggður almenningsgarður, baðströnd, náttúruminjasafn og sundlaug úti á sjó í miðjum Skerjafirði. Þá er lagt til að götur verði færðar, strætisvagnaleiðum fjölgað og sporvagnakerfi komið upp.

Forsvarsmenn Kópavogsbæjar segja að þetta séu þó aðeins hugmyndir sem unnið verði með, ekki sé ætlunin að taka þær hráar upp. Áfram er gert ráð fyrir að brú verði reist yfir Skerjafjörð, enda er hún í aðalskipulagi bæði Kópavogs og Reykjavíkur.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri segir að tillögurnar fjórar séu góðar. Hann segir að vandamálið við Kársnes sé kannski að þótt það sé mjög miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu séu samgöngur þangað takmarkaðar. „Þess vegna er mikið lagt upp úr tengingum í þessum tillögum, og það er alveg klárt að þarna er verið að taka á þeim, en svo eru auðvitað líka ákveðnar hugmyndir varðandi uppbyggingu á svæðinu, sem að klárlega munu víkka hugmyndir og þann skilning sem fólk hefur varðandi uppbyggingu á Kársnesi, og þeirra sem hafa með það að gera, eins og til dæmis skipulagsnefnd,“ segir Ármann.

Heimild: Rúv.is