Home Fréttir Í fréttum Saurgerlamengun í vatni á Seyðisfirði

Saurgerlamengun í vatni á Seyðisfirði

69
0
Saurkolígerlar mældust í sýnum úr neysluvatni Seyðfirðinga sem Heilbrigðiseftirlit Austurlands tók 28. janúar. Í kjölfarið kom í ljós að nýendurnýjaður tækjabúnaður vatnshreinsistöðvar bæjarins virkaði ekki sem skyldi.
Búnaðurinn hefur verið lagaður en Seyðfirðingar búa við opið vatnsból sem hættara er við að mengist af saurgerlum en lokaðar uppsprettur. Unnið var að hreinsun vatnskerfisins í dag og liggja niðurstöður fyrir um miðjan dag á morgun hvort að kerfið sé orðið laust við mengun.

Að sögn Vilhjálms Jónssonar bæjarstjóra virkaði búnaðurinn sem skyldi þegar innra eftirlit Seyðisfjarðarkaupstaðar skoðaði kerfið þann 17.janúar en Heilbrigðiseftirlitið hefur ekki tekið sýni úr neysluvatninu síðan í haust. Leifur Þorkelsson hjá Heilbrigðiseftirliti Austurlands segir að sýni séu aðeins tekin fjórum sinnum á ári og var síðasta mæling í haust. Vilhjálmur telur geislabúnaðinn sem hreinsi vatnið ekki hafa verið bilaðan lengi en bendir á að athugasemd Heilbrigðiseftirlitsins hafi verið að um óverulega mengun hafi verið að ræða. Þó sé réttast að sjóða vatn sem ætlað er til drykkjar, sér í lagi handa börnum, öldruðum og þeim sem eru veikir fyrir, eins og kom fram á síðu bæjarins.

<>

Viðgerð hefur farið fram

Á veitingastöðum og heimilum var vatn soðið í dag í kjölfar fréttanna, hraðsuðukötlum komið fyrir á hótelherbergjum og unnu starfsmenn bæjarins að því að hreinsa útaf vatnskerfinu í dag. Vilhjálmur telur að starfsmenn bæjarins hafi náð að hreinsa vatnskerfið í dag með því að hleypa út af því og koma hreyfingu á það. „Hleypt var útaf brunahönum í hverfum þar sem ekki er mikil hreyfing á vatninu en þar sem vatnið er í stofnæðum er það mjög fljótt að hreinsa sig.“ Vilhjálmur segir bæjarfélagið undirbúa uppsetningu viðvörunarbúnaðar svo tilkynningar um bilanir berist strax. Annað sé óviðunandi.

Niðurstöður rannsóknar á sýnum af neysluvatni Seyðfirðinga eftir viðgerð og hreinsun kerfisins ættu að vera aðgengilegar um miðjan dag á morgun.

Heimild: Rúv.is