Uppbygging á reit Menntaskólans í Reykjavík hefur lengi staðið til. Ein af forsendunum er að gamla KFUM- og K-húsið, sem gengur undir nafninu Casa Christi og var byggt árið 1907 yrði rifið.
Íbúar í hverfinu hafa mótmælt þessum framkvæmdum, en í mati á deiliskipulagi reitsins árið 2009 gerði húsafriðunarnefnd engar athugasemdir við niðurrif hússins, þótt það hefði mikið gildi vegna menningarsögu.
Eftir að lög um menningarminjar tóku gildi árið 2012 varð húsið sjálfkrafa friðað vegna aldurs en þá var hins vegar búið að samþykkja deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir að það viki. Framkvæmdaraðili á reit er íslenska ríkið.
Á Facebook í gær deildu forsætisráðherra, sem vill varðveita húsið og borgarstjóri um niðurrif þess. Borgarstjóri sagði forsætisráðherra rífast við sjálfan sig, þar sem ríkið væri framkvæmdaraðilinn. Forsætisráðherra vísaði hins vegar til þess að Minjastofnun leggist gegn niðurrifi Casa Christi, þar sem húsið sé friðað
Í umsögn Minjastofnunar frá því október á síðasta ári bendir stofnunin hins vegar á að hún geti ekki gert kröfu um varðveislu hússins á núverandi stað vegna fyrri afgreiðslu húsafriðunarnefndar. Stofnunin leggur til að Casa Christi verði endurbyggt á öðrum stað með upphaflegu útliti. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur, sem heimilaði ríkinu að láta rífa Casa Christi og nýbyggingar, kvað fastar að orði í bókun um málið og beindi því til lóðarhafa að húsið yrði gert upp í upprunarlegri mynd á skólasvæðinu.
Hvað verður um húsið liggur ekki fyrir. Minjastofnun ítrekaði á dögunum við bygginganefnd MR að húsið væri friðað og það mætti ekki raska því nema með samþykki stofnunarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá stofnunni hafa engin viðbrögð borist.
Heimild: Rúv.is