Einungis barst eitt tilboð í annan áfanga hringtengingar ljósleiðara á Vestfjörðum. Tilboðið hljóðar uppá tvöfaldan þann kostnað sem kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Mikil vonbrigði, segir stjórnarformaður fjórðungssambands Vestfjarða.
Útboðsfrestur á öðrum áfanga ljósleiðaratengingar á Vestfjörðum, frá Nauteyri til Súðavíkur, rann út í gær og einungis barst eitt tilboð. Tilboðið er frá Mílu ehf. og hljóðar upp á 369,5 milljónir króna en samkvæmt kostnaðaráætlun verksins var gert ráð fyrir heildarkostnaði uppá 136,3 milljónir króna.
Tilboðið er tvö hundruð og þrjátíu milljónum hærra en gert var ráð fyrir í kostnaðaráætlun, það stangast um leið á við upphæð til málaflokksins samkvæmt fjárlögum. Friðbjörg Matthíasdóttir er stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfjarða: „Það er ekki hægt að segja annað en að þetta séu gríðarleg vonbrigði. Þetta tilboð sem engan vegin í takt við kostnaðaráætlun. Og óhagstætt fyrir pottinn. Það gefur ekki tilefni til mikillar bjartsýni.”
Friðbjörg segir skýrt að vilji stjórnvalda til að tengja þéttbýlisstaði sé til staðar en það sé ljóst að grípa þurfi til sérstakra fjárveitinga ef taka á þessu tilboði. Það sé mikilvægt að ljúka þessu verkefni áður en haldið verður í önnur: „Þetta er bara það sem skiptir gríðalegu máli fyrir atvinnulífið hér, öryggi, það er svo margt sem krefst góðs netsambands. Ef við ætlum að stefna áfram þá þarf þetta að vera í lagi.”
Heimild: Rúv.is