Ýmislegt óvænt kom í ljós þegar veggklæðningar í fangaklefum gamla Hegningarhússins við Skólavörðustíg voru rifnar niður. Þar á meðal mynd af manni og konu sem líklega var máluð á síðari hluta nítjándu aldar.
Hegningarhúsið við Skólavörðustíg var reist árið 1872 og þegar mest var voru 16 fangaklefar í húsinu. Bæjarstjórn Reykjavíkur var líka með aðstöðu í húsinu um tíma og þar voru einnig kveðnir upp dómar yfir sakamönnum.
Hegningarhúsinu var lokað árið 2016 og fjórum árum síðar hófust endurbætur sem enn standa yfir. Þorsteinn Bergsson framkvæmdastjóri Minjaverndar, sem hefur yfirumsjón með framkvæmdum, telur að það taki að minnsta kosti tvö ár til viðbótar að klára verkið.
„Það er meira verk óunnið í þessu húsi heldur en unnið hefur verið á síðustu tveimur árum. Framkvæmdir innanhúss eru umtalsverðar og þær eru tímafrekar, margir verkþættir kostnaðarsamir. Þannig að það er töluvert í land,“ segir Þorsteinn Bergsson.
Framkvæmdir standa nú yfir á jarðhæð hússins þar sem fangaklefarnir voru. Þar kom ýmislegt í ljós þegar gamlar veggklæðningar voru rifnar niður.
Meðal annars mynd af manni og konu sem líklegt þykir að einhver fangi hafi teiknað á síðari hluta 19. aldar. Þar má einnig sjá veggjakrot sem líklega var gert á svipuðum tíma. Einungis er hægt að greina einstaka stafi en ekki heil orð eða setningar. Þorsteinn segir þó útilokað að tímasetja þetta nákvæmlega.
„Það er kannski ekki víða en það er þó á nokkrum stöðum þar sem ummerki um myndlist eða eitthvert skreyti sem vistmenn hafa skilið eftir sig. Þessar myndir á þessum vegg eru meðal þeirra greinilegustu og við höfum ákveðið að gera þessum hlutum skil með einhverjum hætti við endurgerð hússins,“ segir Þorsteinn.
Heimild: Ruv.is