Ef áform um mikla efnistöku af hafsbotni við ströndina við Landeyja- og Eyjafjallasand verða að veruleika getur það farið saman að efnið verði nýtt um leið og verulega dregur úr sandburði að Landeyjahöfn. Ef vel tekst til getur það minnkað verulega úr kostnaði við viðhaldsdýpkun Vegagerðarinnar í og við höfnina.
Íslenskt dótturfélag þýska sementsframleiðandans Heidelberg hefur lagt fram matsáætlun vegna efnisvinnslu í sjó við Landeyjahöfn og löndunar efnisins í Þorlákshöfn.
Fyrirhugað er að vinna efnið í verksmiðju sem byggð verður í Þorlákshöfn og flytja það út til Þýskalands og nota til íblöndunar við sementsframleiðslu. Notkun efnisins dregur verulega úr kolefnislosun við framleiðsluna.
Minni flutningar á vegum
Fyrirtækið hyggst nýta námur í Þrengslum og hefur látið gera umhverfismat fyrir efnisnám úr Litla-Sandfelli. Efnisnám þar kallar á verulega þungaflutninga eftir veginum til Þorlákshafnar og breytir landslaginu ef heilt fjall hverfur.
Áformin við Landeyjahöfn eru mun stórtækari en þar sem efnið verður flutt sjóleiðina til Þorlákshafnar dregur það úr þungaflutningum sem annars hefði þurft vegna flutninga úr Þrengslunum. Áformað er að vinna 60-75 milljónir rúmmetra í 30 ár, miðað við að árleg efnistaka verði um það bil tvær milljónir rúmmetra.
Efnistakan mun fara fram á sanddæluskipi sem dælir efni af hafsbotni og landar í Þorlákshöfn einu sinni í viku eða oftar. Efnið verður flutt frá skipshlið að verksmiðju með færiböndum, annaðhvort þurrt eða úr setlóni við höfnina.
Heimild: Mbl.is