Home Fréttir Í fréttum Hjúkrunarrýmum í Reykjanesbæ fjölgað um 20 umfram fyrri áætlun

Hjúkrunarrýmum í Reykjanesbæ fjölgað um 20 umfram fyrri áætlun

137
0
Svona voru drögin að húsinu þegar skóflustungan var tekin í maí á síðasta ári.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ hafa undirritað samning um að bæta einni hæð við nýtt hjúkrunarheimili sem reist verður við hlið hjúkrunarheimilisins Nesvalla.

<>

Fyrsta skóflustunga að nýja heimilinu var tekin í maí síðastliðnum. Þá var gert ráð fyrir að það yrði fyrir 60 íbúa en með þessari breytingu fjölgar rýmunum um 20. Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins en Víkurfréttir greindu frá fyrirhugaðri stækkun í blaði vikunnar.

„Það var góður áfangi þegar fyrsta skóflustungan að nýju heimili var tekin síðastliðið sumar. Að nú liggi fyrir samningur um stækkun þess er ekki síður ánægjulegt, því þörfin fyrir fleiri hjúkrunarrými er svo sannarlega fyrir hendi“ segir Willum.

Þegar nýja heimilið er tilbúið verður hjúkrunarheimilinu Hlévangi lokað. Hjúkrunarrýmum fjölgar því í heildina um 50 í Reykjanesbæ.

Reykjanesbær leggur til lóðina undir heimilið og mun annast hönnun þess og byggingu. Stefnt er að því að verklegar framkvæmdir hefjist næsta vor og að hægt verði að taka heimilið í notkun fyrir lok árs 2025.

Hemild: Vf.is