Feðgarnir Sigurður Brynjar Pálsson og Sölvi Steinn Sigurðsson stunda saman nám í trésmíði í kvöldskóla FB. Samveran í skólanum hefur verið góð og stefna feðgarnir á að smíða saman gestahús við sumarhús fjölskyldunnar næsta sumar
„Ég hef alla tíð haft áhuga á að geta bjargað mér sjálfur þegar hefur komið að viðhaldi, til dæmis á heimilinu eða í sveitinni þar sem sumarhús fjölskyldunnar er. Þar fer ég sjaldan úr smíðavestinu, endar hefur það veitt mér mikla hugarró að fara í annað hlutverk en því sem ég er í dag frá degi.
Að vinna með höndunum, áhugi á að skapa, búa til hluti hefur fylgt mér frá því ég man eftir mér,“ segir Sigurður sem vann á menntaskólaárunum hjá byggingaverktaka en tók svo aðra stefnu í lífinu og er í dag forstjóri BYKO.
Sölvi, sem er 21 árs og stundar einnig nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, segist deila smíðaáhuganum með föður sínum. „Ég hef alltaf haft áhuga á að smíða og vinna með höndunum.
Það var samt aldrei á dagskrá að mennta sig í slíku. Þegar pabbi var að skoða húsasmíðanám og spurði hvort ég myndi vilja koma með honum þá var ég alveg tvístigandi. Þannig að segja mætti að þetta hafi verið skyndiákvörðun hjá mér. Ég leit samt á þetta sem góða stund með pabba,“ segir Sölvi og bætir við að menntun nýtist alltaf vel.
Hvernig er að læra viðskiptafræði og trésmíði á sama tíma?
„Þetta passar mjög vel saman, gott að komast frá bókunum og fara að vinna með höndunum. Þetta getur samt sem áður verið smá strembið inn á milli, tímalega séð en maður þarf bara að vera skipulagður og horfa á þetta á jákvæðan hátt,“ segir Sölvi.
Hvernig var að fara í nám með pabba sínum?
„Það er sérstakt en mjög skemmtilegt. Maður sýnir alveg sína góðu hlið og sér sömuleiðis aðra hlið á pabba. Síðan er þetta bara góð stund sem við eigum okkar á milli, sem mér þykir dýrmætt,“ segir Sölvi og faðir hans tekur undir:
„Við erum og höfum alla tíð verið góðir og nánir vinir. Það hefur verið mjög skemmtilegt að vera í þessu saman. Það er ábyggilega oftar þannig að foreldrar gefi börnum sínum ráð og leiðbeini. Hjá okkur hefur það í raun verið öfugt, ég hef leitað mikið til hans með ráðleggingar, við höfum lagst saman yfir verkefnin, skipst á skoðunum og endað með sameiginlega niðurstöðu. Sem hefur verið þroskandi og um leið mjög gefandi. Við erum í náminu sem samnemendur á sama stað í sama tilgangi,“ segir Sigurður.
Sigurður segir námið hafa verið skemmtilegt en einnig krefjandi. „Það sem hefur verið hvað mest krefjandi er þrívíddarhugsunin, það er að virkja þá hugsun. Grunnteikniáfangarnir hafa verið býsna krefjandi. Þar er meðal annars gerð sú krafa að geta teiknað upp form frá öllum hliðum og áttað sig á raunstærðum. En að sama skapi mjög gagnlegt og í raun hefur opnað fyrir mér nýja hugsun þegar kemur að byggingum.“
Hvað hefur komið mest á óvart?
„Hvað þetta er fjölbreytt nám sem hentar öllum. Engin krafa gerð um styrkleika, þekkingu eða reynslu. Ég kom allavega þarna inn með lágmarksþekkingu en náði að reisa sumarhús með góðum hópi þennan veturinn,“ segir Sölvi.
Feðgarnir stefna á útskrift haustið 2023. Sigurður segir að markmiðið sé að klára sveinspróf og hann ætlar mögulega í framhaldinu í meistaranámið. Menntunin mun ekki bara skila sér í meiri og betri smíðavinnu heldur einnig í núverandi starfi.
„Öll menntun, sama hver hún er, nýtist fólki. Ég hef alltaf talað fyrir því að fólki eigi stöðugt að endurmennta sig og læra nýja hluti, læra af öðrum. Það getur ekki annað en styrkt viðkomandi þó það væri ekki annað en víðara sjónarhorn sem fólk öðlast við aukna þekkingu. Án efa mun trésmíðin nýtast mér í starfi.
Viðskiptavinir BYKO standa frammi fyrir framkvæmdum, hvort sem um ræðir fegrun heimilisins, nýframkvæmdir, viðhald og svo framvegis. Með þessa menntun í farteskinu eykur það enn frekar skilning minn á þeim viðfangsefnum sem viðskiptavinir BYKO fást við hverju sinni.
Það skiptir okkur máli að okkar viðskiptavinum gangi vel með þau verkefni sem þau fást við. Ég á svo eftir að standa enn betur að vígi með þau verkefni sem bíða heima fyrir. Það er mjög skemmtilegt að setjast á skólabekk og sérstaklega í þessu námi þar sem ég hef haft tækifæri til að kynnast skemmtilegu og áhugaverðu fólki með ólíkan bakgrunn,“ segir Sigurður.
Sölvi sem er enn ungur námsmaður er einnig viss um að námið muni nýtast honum. „Þessi þekking nýtist alveg klárlega einhvern tímann í framtíðinni hvort sem það verður við vinnu eða við framkvæmdir á mínu eigin húsi. Eins og staðan er hjá mér þá er ekki á dagskrá að fara að vinna við smíðar.
Ég veit samt ekki hvað framtíðin felur í sér. Feðgar á ferð var hugmynd sem kom upp þegar við skráðum okkur í námið og hver veit nema það verði eitthvað úr þeirri hugmynd í framtíðinni. Þá er nú gott að vera með viðskiptafræðina á ferilskránni,“ segir Sölvi og brosir.
Heimild: Mbl.is