Home Fréttir Í fréttum Gagnrýna mikinn kostnað við að hreinsa lífræn efni úr skólpi

Gagnrýna mikinn kostnað við að hreinsa lífræn efni úr skólpi

153
0
Hreinsuðu skólpi á að veita út í mitt Lagarfljót. Lagarfljót – RÚV - Rúnar Snær Reynisson

Sveitarfélög sem veita skólpi í straumþung jökulvötn þurfa að leggja í mikinn kostnað við að hreinsa lífræn efni úr skólpinu.

<>

Það kostar hátt í einn milljarð króna að byggja tveggja þrepa skólphreinsistöð fyrir Egilsstaði. Gagnrýnt er að hreinsa þurfi mestöll lífræn efni úr skólpi sem rennur í straumþungt jökulvatn en það stóreykur kostnað.

HEF veitur ætla að byggja nýtt skólphreinsivirki við Melshorn en þaðan verður hreinsuðu skólpi frá Egilsstöðum veitt út í mitt Lagarfljót. Fljótið er skilgreint sem viðkvæmari viðtaki en sjór og því þarf aukna hreinsun í tveimur þrepum.

Fyrst þrepið er grófhreinsun og tekur rusl og fleira en seinna þrepið er frekari hreinsun sem miðar að því að minnka styrk lífrænna efna.

Kostar 250 milljónum meira en talið var
HEF veitur fengu norska ráðgjafa til að hanna hreinsistöð og samkvæmt grófri áætlun kostar hreinsivirki með frekari hreinsun 945 milljónir króna fyrir utan virðisaukaskatt. Það er um 250 milljónum meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þröstur Jónsson, fulltrúi Miðflokks í sveitarstjórn gagnrýndi þennan mikla kostnað í bókun og segir í samtali við Austurfrétt að óeðlilegt sé að skilgreina Lagarfljót á sama hátt og ferskvatn.

Ívar Karl Hafliðason á sæti í stjórn HEF veitna og tekur í svipaðan streng. Lítil hætta sé á ofauðgun vegna lífrænna efna sem fari í Lagarfljót. Fljótið er straumþungt jökulvatn.

Meira en helmingurinn af kostnaðinum við hreinsivirkið er vegna frekari hreinsunar.

Ætti að byrja á grófhreinsun
Ívar segir að stjórn HEF veitna hafi ekki ákveðið hvað gert verði en að hans mati ætti að byrja á grófhreinsun og vakta áhrifin sem hún hafi á fljótið. Með því móti sé hægt að skilgreina þörf á frekari hreinsun betur.

Framkvæmdinni verði því skipt í tvo verkþætti með það lokamarkmið að allt skólp frá þéttbýlinu við Fljótið sé hreinsað á fullnægjandi hátt samkvæmt reglugerð. Vonandi muni vinna við endurskilgreiningu á viðtaka skólps gera greinarmun á vatnsmiklum jökulám og tærum bergvatnsám.

Fleiri sveitarfélög séu í svipaðri stöðu – standi frammi fyrir að leggja í mikinn kostnað við að mögulega ofhreinsa skólp áður en það fer í vatnsmikil jökulfljót.

Heimild: Ruv.is