Home Fréttir Í fréttum Opna hótelið við Austurvöll

Opna hótelið við Austurvöll

429
0
Gamli Sjálfstæðissalurinn hefur verið endurbyggður í upprunalegri mynd og verður hann hluti af rekstri hins nýja hótels. Mynd: Turisti.is

Iceland Parliament Hotel er heiti nýs hótels við Alþingishúsið sem nú hefur verið opnað. Framkvæmdir við byggingarnar, sem hótelið er starfrækt í, hafa dregist á langinn og þeim lýkur fyrst næsta vor þegar öll 163 herbergi hótelsins verða tekin í notkun.

<>

„Gamla Landssímahúsið gengur nú í endurnýjun lífdaga og verður aðgengilegt innlendum og erlendum gestum, en í almenningsrýmum hótelsins verður til sýnis einstakt safn íslenskrar myndlistar sem er í einkaeigu. Boðið verður upp á skipulagða leiðsögn um húsið á komandi ári fyrir þau sem vilja fræðast um íslenska myndlist og húsakynni hótelsins,“ segir í tilkynningu.

„Það má segja að byggingarnar verði nú aðgengilegri almenningi en nokkru sinni fyrr,“ segir Hildur Ómarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Iceland Hotel Collection, sem stýrt hefur framkvæmdum við hótelið fyrir hönd rekstraraðila.

Veitingastaður hótelsins ber nafnið Hjá Jóni og snýr hann út að Austurvelli þar sem styttan af Jóni Sigurðssyni stendur. Á jarðhæð hótelsins verður barinn Telebar og er heitið skírskotun í fyrrum starfsemi hússins sem áður hýsti höfuðstöðvar Landsímans og fjarskiptatengingar höfuðborgarinnar við landsbyggðina og landsins við útlönd á árum áður.

Á Telebar verða framreiddar kaffiveitingar á daginn og úrval vína og kokteila á kvöldin, ásamt smáréttum. Loks hefur gamli Sjálfstæðisalurinn verið endurgerður í upprunalegri mynd en bæði ytra og innra byrði salarins er friðað.

Hið nýja hótel er hluti af Iceland Hotel Collection by Berjaya sem áður hét Icelandair Hotels og var þá í eigu flugfélagsins sjálfs. Tengsl Icelandair við hótelið við Austurvöll eru þó talsverð því flugfélagið á helming í fasteigninni en líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá hvíldu á henni skuldir upp á nærri 13 milljarða króna um síðustu áramót.

Heimild: Turisti.is