Á komandi ári er áætlað að fjárfestingar Fjallabyggðar nemi 308 milljónum og verða þær fjármagnaðar með handbæru fé. Farið verður í framkvæmdir við nýja viðbyggingu við húsnæði Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði.
Næsta haust mun starf nemenda í 5. bekk flytjast í starfsstöð grunnskólans í Ólafsfirði þannig að frá þeim tíma mun miðstigið vera sameinað. Bætt verður verulega í tölvuvæðingu á unglingastigi með kaupum á chromebookvélum fyrir nemendur.
Einnig verður lagt fjármagn í bætt umferðaröryggi og ásýnd Aðalgötu í Ólafsfirði.
Það er ánægjulegt að verið sé að fara í framkvæmdir varðandi íbúðarhúsnæði í báðum bæjarkjörnum. Tvö einbýlishús eru í byggingu í Bakkabyggð í Ólafsfirði og búið er að úthluta 7 einbýlishúsalóðum til viðbótar þar.
Á gamla malarvellinum á Siglufirði hefur öllum lóðum verið úthlutað, fyrir allt að 27 íbúðir og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist næsta vor. Nú er unnið að undirbúningi gatnagerðar á malarvellinum.
Einnig er búið að úthluta lóðum fyrir 10 íbúðir við Eyrarflöt á Siglufirði í par- og raðhúsum.
Ný geislatæki til hreinsunar á vatni verða sett upp við Múla- og Hvanneyrarlind auk þess verður unnið að úrbótum á eftirlitskerfi dælubrunna í holræsakerfi bæjarins.
Áfram verður haldið með endurnýjun götulýsingar með LED-væðingu. Eins verða miklar framkvæmdir á nýju ári við endurnýjun gangstétta og gerð nýrra göngustíga.
Í fjárhagsáætlun 2023 er gert ráð fyrir tæplega 150 milljónum, til viðhalds mannvirkja enda er mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf mannvirkja í bæjarfélaginu. Til samanburðar fóru 114 milljónir til viðhalds á árinu 2022.
Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Fjallabyggðar 2023.
Heimild: Hedinsfjordur.is