Home Fréttir Í fréttum Tíu milljarða vantar í fjárlög upp í loforðin í vegagerð

Tíu milljarða vantar í fjárlög upp í loforðin í vegagerð

100
0
Sigurður Ingi Jóhannsson er innviðaráðherra. STEINGRÍMUR DÚI MÁSSON

Tíu milljarða króna gat er í nýsamþykktum fjárlögum næsta árs til að unnt verði að standa við þau fyrirheit sem gefin voru í samgönguáætlun fyrir síðustu kosningar. Breikkun Suðurlandsvegar í útjaðri Reykjavíkur er meðal þeirra verkefna sem skorin verða niður.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að undanfarna áratugi virðist það hafa verið vera reglan að framlög sem heitið er til vegagerðar í samgönguáætlun, áður vegaáætlun, rétt fyrir þingkosningar, eru skorin niður í fjárlögum eftir kosningar. Fjárlögin sem samþykkt voru á Alþingi fyrir helgi eru þar engin undantekning.

Ef staðið hefði verið við fyrirheitin sem gefin voru í núgildandi samgönguáætlun, þremur mánuðum fyrir síðustu þingkosningar, hefðu rétt tæplega 33 milljarðar króna átt að fara í framkvæmdir í vegakerfinu á næsta ári, miðað við verðlagsframreikning frá Vegagerðinni. Niðurstaða fjárlaga er um 23 milljarðar króna, tíu milljörðum minna.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra afsakar þetta að þessu sinni með því að slá hafi þurft á þensluna.

„Á næsta ári, eins og fram hafði komið, þá er það gríðarlegt þensluár. Við erum svona að reyna að halda aftur af fjárútlátum á því ári.

En framkvæmdir verða boðnar út á því ári. Við munum til dæmis sjá Reykjanesbrautina boðna út á því ári,“ segir Sigurður Ingi.

Í frétt Stöðvar 2 síðastliðið vor kom fram í viðtali við framkvæmdastjóra hjá Vegagerðinni að til stóð að hefja framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar milli Straumsvíkur og Hvassahrauns um mitt síðastliðið sumar:

Einhver stærstu verkefnin þessi misserin eru á Vestfjörðum, í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði. En munu útboð þar frestast?

„Þau munu öll halda sínum takti,“ svarar ráðherrann.

-Hvenær þýðir það?

„Ja. Það er býsna mikið í gangi í augnablikinu. En útboðsferlið á veginum um Gufudalssveit, eða suðurfirði Vestfjarða, það er algerlega á áætlun.“

Í frétt Stöðvar 2 frá því í febrúar á þessu ári kom fram í viðtali við verkefnisstjóra Vegagerðarinnar að gert væri ráð fyrir að næsti áfangi, kafli yfir Gufufjörð, yrði boðinn út síðar á þessu ári:

Breikkun Suðurlandsvegar við Hveragerði milli Varmár og Kamba er meðal þess sem átti að hefjast á næsta ári en í samgönguáætlun hafði áður verið miðað við að ljúka þessum kafla árið 2022. Einnig breikkun í útjaðri Reykjavíkur milli Hólmsár og Norðlingavaðs en ljóst virðist að þetta lendir undir hnífnum.

„Það eru seinkanir sem við urðum að fara í, það er að segja á Suðurlandsveginum. En við munum væntanlega sjá nýja fjármálaáætlun og samgönguáætlun á næsta ári og þá getum við endurraðað þessum stóru brýnu verkefnum aftur á dagskrá,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

Heimild: Visir.is