Home Fréttir Í fréttum Fiskmjölsverksmiðjan í Neskaupstað endurnýjuð

Fiskmjölsverksmiðjan í Neskaupstað endurnýjuð

100
0
Unnið að uppsetningu á nýjum eimurum í próteinverksmiðju Síldarvinnslunnar. Ljósmynd: Aðsend mynd

Tvö eimingartæki af stærri gerðinni hafa verið sett upp í nýrri verksmiðju sem er að taka á sig mynd hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Í eimingartækin eru þrædd rör sem myndu teygja sig um tuttugu kílómetra ef þau væru lögð saman.

<>

Búnaðurinn er hannaður og smíðaður frá grunni hjá Héðni hf. Það tók starfsfólk fyrirtækisins um þrjá mánuði að þræða tankana og sjóða rörin föst. Þau eru soðin beggja vegna á platta.

Alls voru þetta um og yfir fimm þúsund suður. Fyrst var punktsoðið af starfsmanni en svo tók róbóti við og hringsauð hvert rör fast. Í næsta áfanga verður komið fyrir pressum og sjóðurum.

Nýja verksmiðjan verður með vinnslugetu upp á 2.000 tonn á sólarhring og er gert ráð fyrir að hún verði tilbúin seint á næsta ári.

Minni verksmiðjan komin í gang

Fiskifréttir sögðu frá því fyrr í haust þegar uppsetningu lauk hjá Síldarvinnslunni á minni verksmiðju, sem kemur frá HPP Solutions, dótturfélagi Héðins. Sú verksmiðja hefur 380 tonna vinnslugetu á sólarhring.

Tilkoma HPP verksmiðjunnar skapar margvíslega möguleika og hægt verður að keyra hana og stóru verksmiðjuna á sitthvoru hráefninu. Að sögn Hafþórs Eiríkssonar, rekstrarstjóra fiskmjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, hafa allar væntingar um afköst og gæði afurða staðist.

HPP verksmiðjurnar vinna hágæða prótein og olíur úr hvítfisk, uppsjávarfisk, laxfiskum og skeldýrum. Þær eru smíðaðar í mismunandi stærðum eftir því hvort þær eru fyrir skip eða landvinnslu.

Íslensk nýsköpun

HPP próteinverksmiðjan er afurð íslenskrar nýsköpunar sem var í þróun hjá Héðni í um fimmtán ár og sprettur beint upp úr langri reynslu fyrirtækisins í íslenskum sjávarútvegi.

Sérstaða verksmiðjanna felst í því að þær taka um þriðjungi minni pláss en hefðbundnar fiskmjölverksmiðjur. Íhlutirnir eru um 30 prósent færri og þær eru sagðar nota um 30 prósent minni orku.

Samkvæmt upplýsingum frá Síldarvinnslunni má reikna með að árleg orkunotkun gæti orðið um 10 milljónum kílóvattstunda minni en ella eða sem svarar orkutnokun rúmlega 2.700 heimila. Í skipum með HPP verksmiðju um borð er aflinn sömuleiðis sagður er fullnýttur, hver einasti sporður.

Heildarfjárfestingaráætlun miðar að uppbyggingu í Neskaupstað fyrir 4,8-5 milljarða króna, þar af 1,7 milljarði króna fyrir HPP próteinverksmiðjuna.

Próteinverksmiðjur HPP hafa verið seldar til útgerða og landvinnslna í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Færeyjum, Englandi, Finnlandi, Frakklandi og Noregi.

Hér á landi hafa verið settar upp fjórar verksmiðjur. Þar á meðal er ein um borð í Ilivileq (áður Skálabergi), hátæknivæddum grænlenskum frystitogara sem var í eigu Arctic Prime Fisheries, grænlensks fyrirtækis sem er að þriðja hluta í eigu Brims hf.

Heimid: Fiskifrettir.vb.is