Kostnaður sem fallið hefur til vegna ráðgjafar, hönnunar og gerðar útboðsgagna vegna uppbyggingar Hamarshallarinnar í Hveragerði nemur tíu milljónum króna.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins spurði um kostnaðinn sem hefur fallið til við vinnu vegna uppbyggingaáforma um nýja Hamarshöll en sú fyrri fauk í ofsaveðri.
Verkfræðistofurnar Verkís og Mannvit hafa fengið 2,9 milljónir annars vegar og 3,5 milljónir hins vegar. Arkitektastofan Alark hefur fengið 3,6 milljónir. „Af þessu eru tæplega þrjár milljónir sem féllu til vegna hugmynda fyrrum meirihluta um kaup á nýju loftbornu íþróttahúsi og ráðgjafar vegna tryggingabóta,“ segir í bókun Friðriks Sigurbjörnssonar.
„Mikilvægt er að vanda vel til verka áður en lagt er af stað í stór og veigamikil verkefni og borgar það sig til lengri tíma litið,“ segir þar enn fremur.
Heimild:Frettabladid.is