Home Fréttir Í fréttum Færan­legar kennslu­stofur fyrir Haga­skóla kosta borgina tæpan milljarð

Færan­legar kennslu­stofur fyrir Haga­skóla kosta borgina tæpan milljarð

128
0
Skólinn hefur glímt við mygluvandamál í talsverðan tíma. Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Borgarráð samþykkti í gær kaup á sextán færanlegum kennslustofum fyrir Hagaskóla auk samtengdra ganga og salerna fyrir rúmar 850 milljónir króna.

<>

Til viðbótar við þann kostnað er gert ráð fyrir að við bætist um 80 milljónir króna vegna jarðvinnu, undirstöðum og lögum í jörðu, að því er fram kemur í bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs til borgarráðs.

„Með þessu móti verður hægt að færa alla nemendur skólans úr bráðabirgða úrræðum í Ármúla 28-30 og Korpuskóla á lóð Hagaskóla. Áætlað er að hægt verði að taka fyrstu stofurnar í notkun í lok mars 2023,“ segir jafnframt í bréfinu.

Nemendur á vergangi
Greint hefur verið frá sögu Hagaskóla en nemendur á fyrstu tveimur unglingastigum skólans, um það bil 400 nemendur, hafa verið á vergangi frá því í lok síðasta árs þegar mygla greindist í húsnæði skólans.

Til að byrja með leigði borgin Hótel Sögu undir nemendur og skrifstofuhúsnæði í Ármúla.

Fréttablaðið greindi frá því undir lok síðasta árs að leiga á húsnæði Hótel sögu hafi kostað Reykjavíkurborgar um 3,4 milljónir með virðisaukaskatti frá 19. nóvember til 21. desember.

Athugasemdir slökkviliðs
Í upphafi þessa skólaárs var kennsla árganganna tveggja færð á sama stað í Ármúla en þar með er ekki öll sagan sögð. Snemma gerði slökkvilið höfuðborgarsvæðisins alvarlegar athugasemdir um skort á brunavörnum húsnæði skólans í Ármúla. Í kjölfarið var ákveðið að flytja hluta nemenda tímabundið upp í Korpuskóla í Grafarvogi.

Formaður foreldrafélags Hagaskóla sagði í samtali við Fréttablaðið í lok september að foreldrum væri stórkostlega misboðið vegna stöðunnar.

Nú er gert ráð fyrir að nemendur snúi aftur heim en þó ekki fyrr en í fyrsta lagi í lok mars á næsta ári. Í bréfinu til borgarráðs kemur ekki fram um framkvæmdir á mygluðu húsnæði Hagaskóla.

Heimil: Frettabladid.is