Home Fréttir Í fréttum Ætla að byggja 180 her­bergja hótel í Þor­láks­höfn

Ætla að byggja 180 her­bergja hótel í Þor­láks­höfn

157
0
Stefnt er að því að hafa 180 herbergi á hótelinu.

Sveitarfélagið Ölfus og Íslenskar fasteignir ehf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um fyrirhugaðar framkvæmdir við hótel og afþreyingarmiðstöð í Hafnarvík við Leirur í Þorlákshöfn. Byggt verður allt að 180 herbergja hótel.

<>

Samkvæmt samkomulaginu mun Ölfus úthluta Íslenskum fasteignum lóð fyrir uppbygginguna en stefnt er að því að hótelið verið hannað og starfrækt í nánu samstarfi við nærliggjandi golfvöll. Þá er stefnt að því að uppbygging hótelsins geti hafist í lok 2023 og að það verði opnað vorið 2026.

„Við eins og aðrir þekkjum þá miklu uppbyggingu sem er að eiga sér stað í Ölfusinu, og þá ekki síst Þorlákshöfn. Við höfum kynnt okkur vandlega þessi áform og höfum mikla trú á framtíð þessa svæðis.

Hér eru allar forsendur til að staðsetja hótel og afþreyingarmiðstöð eins og áform okkar standa til, með golfvöllinn, Bláfjöllin og víðernið við anddyrið og sjálft Atlantshafið og þessa mögnuðu fjöru í bakgarðinum,“ er haft eftir Birni Gunnlaugssyni, verkefnastjóra hjá Íslenskum fasteignum í tilkynningu.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir viljayfirlýsinguna vera stórt skref og í raun viðurkenning að fá sterkt félag líkt og Íslenskar fasteignir til samstarfs um verkefni sem þetta.

„Við heimamenn vitum vel að hér eru mikil tækifæri en það er ekki sjálfgefið að fjárfestar og frumkvöðlar hafi þessa sömu sýn. Þau áform sem nú hafa verið undirrituð munu setja Þorlákshöfn á kortið í ferðaþjónustu svo um munar.

Hótelið verður staðsett í Hafnarvík við Leirur.

Þegar það fer saman með uppbyggingu á nýjum miðbæ, stækkun hafnarinnar, fjölgun íbúa og fjölþættum umhverfisvænum áformum svo sem laxeldi á landi þá verður flestum ljóst að það er vöxtur framundan. Von okkar er því að Íslenskar Fasteignir horfi til áframhaldandi þátttöku hér,“ segir Elliði.

Heimild: Visir.is