Home Fréttir Í fréttum Breytingarnar á Seðla­bankanum kosta þrjá milljarða

Breytingarnar á Seðla­bankanum kosta þrjá milljarða

267
0
Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fá ný húsgögn í vinnuna og það verða engir Ikeakollar. VÍSIR/VILHELM

Í sömu vikunni og öll spjót stóðu á dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra vegna stýrivaxtahækkunar voru sendibílastjórar að keyra mublur og fínerí í stórum stíl inn í Seðlabankann.

<>

Sendibílastjórar sem Vísir heyrði í þótti þetta skjóta skökku við; Ásgeir vildi með stýrivaxtahækkuninni skikka fólk til þess að spara, hætta óráðsíu og sukkinu, táslumyndir frá Tene virtust eitur í beinum seðlabankastjóra en var á sama tíma voru þeir að burðast með húsgögn fyrir milljónir í Seðlabankabygginguna?!

Tímabært að nútímavæða bankahúsið

En hér er ekki allt sem sýnist, allt á þetta á sér skýringar að sögn Stefáns Jóhanns Stefánssonar ritstjóra Seðlabankans. Við sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í ársbyrjun 2020 fjölgaði starfsmönnum bankans úr 177 manns í rúmlega 300.

„Fremur en að stækka húsnæði bankans eða leigja viðbótarhúsnæði til frambúðar var ákveðið að breyta húsnæði bankans við Kalkofnsveg á þann veg að það rúmaði allt starfsfólk bankans undir einu þaki og var hafist handa við verkið í ágúst 2020.“

Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri Seðlabankans segir að breytingarnar séu löngu tímabærar.
VÍSIR/KRISTÓFER

Að sögn Stefáns Jóhanns var tímabært að endurnýja innviði og nútímavæða bankahúsið við Kalkofnsveg þótt ekki hefði komið til sameiningarinnar við Fjármálaeftirlitið en tilefni til endurnýjunar var nýtt í tengslum við sameininguna.

„Húsnæði Seðlabankans við Kalkofnsveg var byggt á árunum 1983-1986 og lagnir og loftræstikerfi því komið á tíma ásamt þörf á uppfærslu vinnuumhverfis í takt við ríkjandi kröfur sem gerðar eru til húsnæðis af þessu tagi.“

Umfangsmiklar breytingarnar kosta sitt

Stefán útskýrir að framkvæmdir hafi verið unnar í tveimur fösum og var sá fyrri, aðalbyggingin, boðinn út sumarið 2020 og hinn síðari boðinn út í september 2022. Fyrri fasa framkvæmdanna er nú svo til lokið með umfangsmiklum breytingum á aðalbyggingunni sem fela meðal annars í sér breytingu frá einkaskrifstofum í opin vinnurými.

En eitthvað hlýtur þetta að kosta?

„Breytingarnar hafa kostað rúmlega 1100 milljónir króna. Framkvæmdir eru nú að hefjast við viðbyggingu bankans. Eftir útboðsferli er áætlaður kostnaður við breytingar á viðbyggingunni ríflega 1900 milljónir króna. Áætlað er að framkvæmdum ljúki fyrri part árs 2024.“

Stefán Jóhann segir vert að halda því til haga að á móti breytinga- og endurbótakostnaði mun koma til langtímasparnaður þar sem leigusamningi var sagt upp vegna fyrra húsnæðis Fjármálaeftirlitsins.

Heimild: Visir.is