Home Fréttir Í fréttum Mikil vöntun á félagslegu húsnæði á Akureyri

Mikil vöntun á félagslegu húsnæði á Akureyri

100
0
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Bið eftir félagslegu húsnæði á Akureyri hefur aldrei verið lengri en nú. Endurskoðun á félagslega kerfinu er hafin og fyrirhugað er að taka í notkun fjörutíu og sex nýjar íbúðir á næstu tveimur árum.

Hyggjast byggja 46 íbúðir og kaupa fleiri eignir

Hundrað og sextíu eru á biðlista eftir félagslegri íbúð á vegum Akureyrarbæjar. Hulda Elma Eysteinsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður velferðarráðs Akureyrar, segir mikilvægt að bregðast skjótt við. Kerfið sé í endurskoðun. „Og höfum sett aukin stofnframlög til óhagnaðardrifinna leigufélaga, ásamt því hefur verið gerður samningur um 32 nýjar íbúðir hjá Brynju hússjóði og það er verður líka farið að kaupa einhverjar eignir á næstu árum.“

<>

Rúmlega þrjú hundruð og fjörutíu félagslegar íbúðir eru á Akureyri. Á næstu tveimur árum bætast við 46 nýbyggingar.

Gjaldskrá félagslegra íbúða hækkar

Velferðarráðið samþykkti nýlega að hækka gjaldskrá félagslegra íbúða um sex prósent svo hægt sé að fjölga íbúðum.

Skýtur verðhækkun á gjaldskrá ekkert skökku við miðað við þessa stöðu sem er nú ríkjandi? 

„Nei ég myndi ekki segja það, auðvitað jú er hægt að orða það þannig en það hefur ekki verið hækkað í það mörg ár að það þarf að láta kerfið standa undir sér og á sama tíma og það verður hækkað gjaldið þá munum við líka hækka sérstaka húsnæðisstuðninginn þannig að þeir sem að virkilega þurfa á að halda verða gripnir og munu margir koma betur út úr þessu,“ segir Hulda.

Erfitt að segja til um orsök

Hulda segir erfitt að segja til um ástæður þess að biðlistinn sé svo langur. „Þetta rokkar alltaf svolítið upp og niður og við eigum von á nýjum lista núna í janúar á næsta ári þannig að það gæti allt eins orðið fækkun á biðlistanum þá,“ segir hún. Mest er eftirspurnin eftir tveggja herbergja íbúðum. Færri sækjast eftir stærri íbúðum eða stúdíóíbúðum.

Heimild: Ruv.is