Tvöhundruð króna varaflugvallargjald verður lagt á bæði innanlands- og millilandaflugfarþega, samkvæmt frumvarpi sem innviðaráðherra boðar.
Gjaldinu er ætlað að standa undir framkvæmdum við flugvellina á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík.
Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Varaflugvallargjald var áður eingöngu innheimt af millilandaflugfarþegum en fellt niður fyrir tólf árum þar sem það var talið fela í sér mismunun í skilningi EES-samningsins.
„Þá var varað við því að það myndi hafa þær afleiðingar að innanlandsflugið, eða varaflugvellir, það er að segja Akureyri, Egilsstaðir og að einhverju leyti Reykjavíkurflugvöllur, myndu sitja eftir í uppbyggingunni. Ég held að við verðum bara að viðurkenna að þessir aðilar höfðu rétt fyrir sér,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Núna boðar Sigurður Ingi að gjaldið verði tekið upp að nýju, með þeirri breytingu að það verður einnig lagt á innanlandsfarþega, 200 krónur á hvern fluglegg eða 400 krónur fram og til baka. Þannig er áformað að afla 1.200 til 1.500 milljóna króna árlega, miðað við núverandi fjölda farþega.
„Varaflugvellir eru jafnmikilvægir og aðalflugvöllurinn. Það verður að vera til varaflugvöllur, sérstaklega þegar við búum á eyju.
Þetta er gríðarlegt loftlagsmál. Þetta er fjárhagslegt mál fyrir flugfélögin. Þau geta verið með minna bensín um borð.
Og það að leggja á lágmarksgjald, eða 200 krónur, eins og við erum að leggja til í þessu frumvarpi, mun hins vegar þýða það að við getum byggt upp, bæði Akureyri, Egilsstaði og Reykjavík,“ segir innviðaráðherrann.
Framkvæmdir eru hafnar við stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri. En hvað líður nýrri flugstöð í Reykjavík, sem ráðherrann hefur ítrekað boðað?
„Ég vonast til að flugstöð sem við höfum verið með á teikniborðinu alltaf öðru hvoru að við náum henni nú í gang. Það er ekki víst að við smíðum mikið á árinu ´23 en ég vonast til að við getum sett verkefnið á rekspöl.
Það eru líka allir sammála um það að Reykjavíkurflugvöllur er jú ekki að fara neitt fyrr en annar jafngóður eða betri finnst. Og akkúrat í augnablikinu er ekki útlit fyrir það,“ segir Sigurður Ingi.
Heimild: Visir.is