Sautján sýni af nítján sýndu myglu
Af nítján sýnum sem voru tekin í skólanum sýndu sautján þeirra myglu. Þorgeir Pálsson, oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð, segir að efnt hafi verið til neyðarfundar í kjölfar þess að niðurstöður lágu fyrir og ákvörðun tekin um að stöðva kennslu í húsinu strax.
„Við erum sem sagt að nýta fundaraðstöðu sveitarfélagsins í þróunarsetrinu okkar fyrir miðstigið, þar er kennsla hafin. Við verðum með yngsta stigið okkar í flugstöðinni og þar er kennsla sömuleiðis hafin og frá og með morgundeginum verður elsta stigið okkar í húsnæði sem að er í eigu Sparisjóðs strandamanna en hefur verið nýtt fyrir dreifnámskennslu.“
Samheldni í samfélaginu og allir hjálpast að
Þorgeir segist feginn að engin formleg tilkynning hafi borist um heilsufarsleg einkenni vegna myglunnar, en hún gæti þó skýrt ýmis óþægindi sem fólk kann að hafa fundið fyrir. Teymi frá EFLU er nú væntanlegt til að gera úttekt á húsinu og í kjölfar þess verður unnið úr niðurstöðum og metið hve mikilla viðgerða er þörf.
„Þetta er auðvitað leiðinleg staða og eitthvað sem kannski einhver óttaðist en nú er þetta bara staðreynd og þá er ekkert annað hægt að gera en að bregðast við því og taka á því en það má líka segja sem svo að allt mótlæti ýtir manni og þéttir hópinn, ýtir fólki saman og mér finnst þetta hafa einmitt gert það.“
Heimild: Ruv.is