Home Fréttir Í fréttum Há­skóli Ís­lands krefst 224 milljóna vegna vatns­lekans

Há­skóli Ís­lands krefst 224 milljóna vegna vatns­lekans

97
0
Áætlað er að ríflega tvö þúsund tonn af vatni hafi þá flætt um fimm byggingar skólans. VÍSIR/EGILL

Háskóli Íslands hefur krafið Veitur, tryggingafélagið VÍS og fleiri aðila um samtals 224 milljónir króna í skaðabætur vegna mikils vatnsleka sem varð á lóð skólans þann 21. janúar 2021.

<>

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Orkuveitu Reykjavíkur sem birt var í gær. Orkuveitan stóð fyrir framkvæmdum við Suðurgötu sem fólust meðal annars í endurnýjun á lögnum.

Stofnlögn vatns fór í sundur að næturlagi sem varð til þess að vatn flæddi inn í byggingar Háskóla Íslands.

Í fyrri tilkynningu frá Veitum kom fram að mistök hafi verið gerð til framkvæmdir sem fólust í að veggur lokahúss, sem styður við stofnlögnina, hafi verið rofinn of snemma í verkinu.

Enn hafi verið þrýstingur á lögninni sem varð til þess að hún hafi farið sundur á samskeytum með þessum afleiðingum. Áætlað er að ríflega tvö þúsund tonn af vatni hafi þá flætt um fimm byggingar skólans.

Í árshlutauppgjöri OR kemur fram að dómskvaddir matsmenn hafi skilað matsskýrslu til Háskóla Íslands í janúar á þessu ári og var kostnaður vegna endurbóta þar metinn á samtals 123,6 milljónir króna.

Við annað mat var svo lagt mat á útlagðan kostnað sem háskólinn taldi sig hafa orðið fyrir og var í kjölfarið lögð fram skaðabótakrafa upp á tæplega 224 milljónir króna auk vaxta.

Fram kemur að VÍS og Veitur hafi í sameiginlegu bréfi hafnað kröfunni. Enn sé beðið eftir mati undirmatsmanna og dómskvaddra yfirmatsmanna. Er reiknað með að matsgerðir þeirra verði mögulega tilbúnar fyrir lok þessa árs.

„OR – vatns- og fráveita er með frjálsa ábyrgðatryggingu sem tekur til skaðabótaábyrgðar sem fellur á félagið.

Skilmálar þeirrar tryggingar mæla fyrir um 5 milljóna króna sjálfsábyrgð og 50% af fjárhæð tjóns eftir það. Þak tryggingarinnar er 300 milljónir króna,“ segir í uppgjörinu.

Heimild: Visir.is