Home Fréttir Í fréttum Járnbrautarteinar finnast í Öskjuhlíð

Járnbrautarteinar finnast í Öskjuhlíð

97
0
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV

Ýmislegt kemur á daginn þegar búið er að brjóta og bramla eins og búið er að gera  í Öskjuhlíðinni.

<>

Það var verið að taka upp heilt bílastæði þar sem Reykjavíkurborg á tvær lóðir. Undir og í steypunni á stæðinu leyndust  járnbrautarteinar,  Heilmikil saga er þar á bak við.

Guðbrandur Benediktsson er safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur,

„Já, þetta er sem sagt úr málmi, bæði svilarnir og teinarnir sjálfir. Það er stutt á milli þeirra og þeir eru nettir. Mjög bara vandað sýnist manni og bendir þá til þess að þetta sé frá stríðsárunum frekar en að þetta sé eldra. Allar líkur á því.“

Í fyrstu var talið hugsanlegt að teinarnir væru frá tímum hafnargerðar í Reykjavík 1913 til 1917 þegar grjót var flutt úr Öskjuhlíð en þegar betur var að gáð þykir sýnt að járnbrautarteinarnir séu frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar flugvöllurinn var byggður og breskt herlið var á Íslandi með mikil umsvif og síðar Bandaríkjamenn. Teinarnir verða hluti af útisýningu Árbæjarsafns.

Guðbrandur Benediktsson segir líklegt að handvagnar hafi verið á teinunum.
„Þeir gætu hugsanlega hafa verið að flytja eitthvað jarðefni við flugvallargerðina. Þeir gætu líka hafa verið að nota þetta í birgðaskemmunum sínum sem þeir voru með um allt svæðið. Því það eru náttúrulega gríðarleg umsvif hjá Bretum á stríðsárunum, ekki hvað síst í og í kringum Öskjuhlíðina sem þeir kölluðu reyndar Howitzer hill eða fallbyssuhæð.“

Glöggur íbúi sem átti leið hjá benti á járnbrautarteinana. Guðbrandur segir mikilvægt að fá ábendingar um minjar telji fólk sig sjá þær.

Heimild: Ruv.is