Umhverfis- og skipulagsráð hefur hafnað erindi Byggingafélagsins Grafarholts ehf. um undanþágu á úthlutunarreglum lóða í nýju Dalshverfi.
Fyrirtækið átti bestu tilboðin í nær allar fjölbýlishúsalóðir sem í boði voru í hinu nýja hverfi.
Ekki fengust svör um hvað erindið snérist nákvæmlega, þegar eftir því var leitað, en óskað var eftir undanþágu við lið 3.0.6 í 3.gr. úthlutunarreglum frá 18. apríl 2017.
Sá liður snýr að greiðslutilhögun byggingar- og lóðargjalda. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs nr. 302 var óskað eftir umsögn bæjarlögmanns varðandi beiðni fyrirtækisins og voru þau drög lögð fram á síðasta fundi ráðsins þar sem umsókninni var hafnað.
Í spjalli við blaðamann sagði formaður umhverfis- og skipulagsráðs að í þessu tilviki væri um að að ræða nýjar úthlutunarreglur, en að auk þess vilji USK almennt ekki veita undanþágur.
Byggingafélagið Grafarholt ehf. fékk úthlutað nær öllum fjölbýlishúsalóðum, sem boðnar voru upp í hverfinu, en ríflega 600 umsóknir bárust í 25 lóðir einbýlis-, par-, rað- og fjölbýlishúsa.
Skipulagið gerir ráð fyrir samtals 175 íbúðum á lóðunum. Dregið var úr 226 gildum umsóknum.
Nýtt fyrirkomulag var notað við úthlutun hluta lóðanna þar sem fyrirtæki buðu í lóðir. Sem fyrr segir átti Grafarholt ehf, sem staðsett er í Garðabæ hæsta boð í nær allar þær lóðir.
Heimild: Sudurnes.net