Home Fréttir Í fréttum Stór­huga hafnar­bændur í Þor­láks­höfn fá ó­dýrt grjót

Stór­huga hafnar­bændur í Þor­láks­höfn fá ó­dýrt grjót

309
0
Höfnin í Þorlákshöfn mun taka stakkaskiptum með framkvæmdunum. Mynd/aðsend

Fimm milljarða fram­kvæmdir eru fyrir­hugaðar við höfnina í Þor­láks­höfn til ársins 2026. Mest allt grjótið kemur úr námu sem varð til við land­mótun lóðar fisk­eldis­stöðvar.

<>

Um­fangs­miklar fram­kvæmdir standa nú yfir í höfninni í Þor­láks­höfn. Meðal helstu verk­þátta eru lenging Suður­varar­garðs um 250 metra, endur­bygging Suður­varar­bryggju og endur­bygging Svarta­skers­bryggju.

Í drögum að fjár­hags- og fram­kvæmda­á­ætlun, sem tekin var fyrir í fram­kvæmda- og hafnar­nefnd, er gert ráð fyrir að heildar­kostnaður til ársins 2026 verði 5,6 milljarðar króna. Þar af 1,8 milljarðar á næsta ári.

„Um­svif Smyril Line í Þor­láks­höfn eru mikil og hafa aukist mikið á síðustu árum. Þessar hafnar­bætur eru til þess gerðar að bæta að­stöðuna fyrir fyrir­tækið.

Auk þess er verið að vinna að fram­kvæmdum við land­eldis­verk­efni, sem munu geta fram­leitt allt að 130 þúsund tonn af laxi auk fleiri stórra verk­efna í sveitar­fé­laginu. Við erum því að vinna að upp­byggingu nauð­syn­legra inn­viða eins og stækkunar hafnarinnar,“ segir Ei­ríkur Vignir Páls­son, for­maður fram­kvæmda- og hafnar­nefndar Ölfuss.

Þær fram­kvæmdir sem eru þegar farnar af stað eru lenging Suður­varar­garðs og endur­bygging Svarta­skers­bryggju. Gífur­lega mikið efni þarf til að lengja Suður­varar­garð og er heildar­stærð fram­kvæmda­svæðisins um 4,5 hektarar.

Grjót­magnið sem fer í lengingu brim­varnar­garðsins er á­ætlað um 300.000 rúm­metrar. Allt grjót nema það stærsta kemur úr námu sem varð til við land­mótun lóðar fisk­eldis­stöðvarinnar Land­eldis ehf. í Þor­láks­höfn.

Vilhjálmur Sigurðsson og Eiríkur Vignir Pálsson formaður Framkvæmda- og hafnarnefndar Ölfus. Fréttablaðið/SigtryggurAri

„Land­eldi ehf. þarf að móta lóðina hjá sér til að setja upp fjöldann allan af kerjum fyrir lax­eldi,“ segir Ei­ríkur og bendir á að til þess hafi fyrir­tækið þurft að taka burt 300 þúsund rúm­metra af efni.

„Þar sem þetta átti að gerast á sama tíma og fram­kvæmdirnar við höfnina var farið í að rann­saka bergið í lóð Land­eldis og kom í ljós að það hentaði á­gæt­lega.“

Ölfus samdi því við for­svars­menn Land­eldis um að fram­kvæmda­aðilar hafnarinnar sæju um að sprengja og moka burt efninu en Land­eldi myndi borga vissa upp­hæð á hvern fer­metra.

„Verk­takinn fær í staðinn að hirða grjótið. Með þessu verður fram­kvæmdin hag­stæðari fyrir Land­eldi og við fáum grjót á góðum kjörum,“ segir Ei­ríkur.

Hann segir að þessar fram­kvæmdir séu til þess gerðar að gera Þor­láks­höfn mögu­legt að taka á móti 180-200 metra löngum skipum.

Þá bendir hann á að fram­kvæmdirnar muni bæta öryggi not­enda hafnarinnar því þær séu til þess gerðar að gera öldu­lag betra og auð­veldara fyrir stór skip að at­hafna sig innan hafnarinnar.

„Á­ætlanir gera ráð fyrir að þegar vinnu við þessar fram­kvæmdir er lokið þá verði höfnin þegar orðin of lítil til að mæta þörfum at­vinnu­lífsins. Þess vegna erum við byrjuð að undir­búa næstu skref sem liggja í frekari stækkun hafnarinnar til norðurs,“ segir Ei­ríkur.

Heimild: Frettabladid.is