Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til að hækka fjárframlög til nokkurra verkefna á þessu ári um 46 m.kr. og skera niður hjá öðrum um jafnháa upphæð.
Lagt er til að hækka viðhaldsfé vegna Grunnskólans á Ísafirði um 13 m.kr. til að klára frágang vegna myglu.
Viðbótarkostnaður er áætlaður um 13 m.kr. við núverandi áætlun, sem er upp á 46 m.kr. Samtals er því kostnaðurinn nærri 60 m.kr.
Fastís fær skv tillögunni 14 m.kr. hækkun , 10 m.kr. vegna viðhalds á tveimur íbúðum á Ísafirði og 4 m.kr. vegna viðhalds á Tungötu á Suðureyri.
Til Flateyrar er varið nærri 6 m.kr. til viðgerða á skólahúsnæði og íþróttahúsi. Á Ísafirði þarf 3,3 m.kr. í íþróttamannvirki viðhald í sundlauginni á Austurvegi og á Torfnesi. Þá eru 6 m.kr. vegna drenlagnar á Urðarvegi.
Í tillögu bæjarráðs er langur listi yfir verkefni sem er lagt til að skera niður fjármagn til á þessu ári.
Helst má nefna að lækkuð er fjárhæð til viðhalds á Hlif og Hlíf I um 9,3 m.kr. Á Þingeyri er framkvæmdum við félagsheimilið 3,3 m.kr. frestað til næsta árs og lækkað um 1 m.kr. viðhald til íþróttamannvirkja.
Á Suðureyri er fjárveiting til íþróttamannvirkja lækkuð um 2 m.kr. með þeirri skýringu að ekki verði komist í málun á útipottun að sinni og til skólahúsnæðis á Suðureyri er lækkuð fjárhæð um 0,5 m.kr.
Viðhald gatna, þar er lækkað viðhald um 5 m.kr en þar af nemur endurhleðslu á Silfurtorgi sem áætluð var 3,5 m.kr. og er frestað fram á næsta ár.
Tillögurnar ganga til bæjarstjórnar sem tekur þær fyrir á næsta fundi sínum.
Heimild: Bb.is