Gert er ráð fyrir að kostnaður við nýjan Landspítala við Hringbraut fari 27 milljarða fram úr uppfærðu kostnaðarmati frá árinu 2017. Heildarkostnaður við spítalann verður ekki undir 90 milljörðum úr því sem komið er.
Verðbætur og hátt hrávöruverð hafa gert það að verkum að kostnaður við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut hefur hækkað umtalsvert.
Kostnaðarmat verkefnisins var uppfært árið 2017 en þá var gert ráð fyrir að spítalinn myndi kosta um 63 milljarða. Heildarkostnaður er nú farinn að nálgast 90 milljarða, sem er 27 milljörðum yfir áður útgefnu mati.
Ásbjörn Jónsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs hjá Nýjum Landspítala (NLSH), segir stærstu verkþætti spítalans enn innan þeirra skekkjumarka sem gert var ráð fyrir í upphafi.
Ekkert bendi til annars en að verkinu verði lokið árið 2028 eins og áætlað var. „Það er akkúrat 50 prósentum af uppsteypunni lokið hérna í meginbyggingunni. Hönnun burðarvirkis er lokið og við erum búin að bjóða út útveggina. Þannig að þetta er farið að taka á sig mynd,“ segir Ásbjörn.
Hann segir nýjan Landspítala einstakt mannvirki að svo mörgu leyti. „Þessi spítali er hannaður og byggður með það í huga að hann geti staðið af sér stærstu mögulegu jarðskjálfta. Burðarvirkin eiga ekki bara að standa eftir óhögguð heldur á öll starfsemin að standast prófið.“
Aðspurður hvort hann sé farinn að telja niður fram að verklokum segist Ásbjörn ekkert vera farinn að leiða hugann að því.
Verkefnið sé vissulega krefjandi en hann njóti þess að takast á við það. „Ætli ég leggist ekki bara inn á einhverja deildina hérna þegar þessu lýkur,“ segir Ásbjörn.
Heimild: Frettabladid.is