Home Fréttir Í fréttum Land­spítali tugi milljarða yfir á­ætlun

Land­spítali tugi milljarða yfir á­ætlun

573
0
Mynd: Fréttablaðið/ERNIR

Gert er ráð fyr­ir að kostnaður við nýjan Land­­spít­al­a við Hring­braut fari 27 milljarða fram úr upp­færðu kostnaðar­mati frá árinu 2017. Heildar­kostnaður við spítalann verður ekki undir 90 milljörðum úr því sem komið er.

<>

Verð­bætur og hátt hrá­vöru­verð hafa gert það að verkum að kostnaður við byggingu nýs Land­spítala við Hring­braut hefur hækkað um­tals­vert.

Kostnaðar­mat verk­efnisins var upp­fært árið 2017 en þá var gert ráð fyrir að spítalinn myndi kosta um 63 milljarða. Heildar­kostnaður er nú farinn að nálgast 90 milljarða, sem er 27 milljörðum yfir áður út­gefnu mati.

Ás­björn Jóns­son, sviðs­stjóri fram­kvæmda­sviðs hjá Nýjum Land­spítala (NLSH), segir stærstu verk­þætti spítalans enn innan þeirra skekkju­marka sem gert var ráð fyrir í upp­hafi.

Ekkert bendi til annars en að verkinu verði lokið árið 2028 eins og á­ætlað var. „Það er akkúrat 50 prósentum af upp­steypunni lokið hérna í megin­byggingunni. Hönnun burðar­virkis er lokið og við erum búin að bjóða út út­veggina. Þannig að þetta er farið að taka á sig mynd,“ segir Ás­björn.

Ásbjörn segist vera orðinn vanur því að vera spurður af hverju framkvæmdin taki svona langan tíma. Fréttablaðið/Ernir

Hann segir nýjan Land­spítala ein­stakt mann­virki að svo mörgu leyti. „Þessi spítali er hannaður og byggður með það í huga að hann geti staðið af sér stærstu mögu­legu jarð­skjálfta. Burðar­virkin eiga ekki bara að standa eftir ó­högguð heldur á öll starf­semin að standast prófið.“

Að­spurður hvort hann sé farinn að telja niður fram að verk­lokum segist Ás­björn ekkert vera farinn að leiða hugann að því.

Verk­efnið sé vissu­lega krefjandi en hann njóti þess að takast á við það. „Ætli ég leggist ekki bara inn á ein­hverja deildina hérna þegar þessu lýkur,“ segir Ás­björn.

Heimild: Frettabladid.is