Home Fréttir Í fréttum Óttast að nýr leikskóli í Kópavogi verði „yfirþyrmandi“

Óttast að nýr leikskóli í Kópavogi verði „yfirþyrmandi“

146
0
Mynd: Kópavogur
Íbúar í raðhúsum við Álfhólsveg hafa þungar áhyggjur af nýjum leikskóla sem stendur að reisa við Skólatröð í Kópavogi.
Þeir telja staðsetningu skólans gera ásýndina í hverfinu einkar þunglamalega og skerða útsýni þeirra til suðurs. Þá óttast þeir að byggingin sjálf verði yfirþyrmandi.

Búið er að rífa leikskóla sem áður stóð á lóðinni. Hann var á einni hæð með tveimur deildum en nú hefur Kópavogsbær til skoðunar tillögu um að þar verði leikskóli á tveimur hæðum með fjórum deildum.

<>

Af þessu hafa íbúar í raðhúsinu við Álfhólsveg 6-10 nokkrar áhyggjur.

Í umsögn sinni gera þeir alvarlegar athugasemdir við hæð og breidd byggingarinnar sem þeir segja að geri hana yfirþyrmandi séð frá raðhúsinu.

Þá óttast þeir að skuggvarp í svartasta skammdeginu hafi í för með sér verulega skerðingu á lífsgæðum þeirra. Og gagnrýna yfirbragð, form og staðsetningu byggingarinnar með hliðsjón af heildarásýnd raðhúsahverfisins.

Rifjaður er upp uppdráttur frá árinu 1955 eftir Sigvalda Thordarson.

Að mati íbúanna sýni hann frábærlega vel hugsað og hannað skipulag þar sem staðsetning raðhúsanna virðist hugsuð til að nýta landið vel en tryggja að sama skapi birtu og andrými.  „Það væri afar dapurlegt ef þessari heildarmynd yrði raskað.“

Þessi lausn sé „versta mögulega útgáfan“ frá þeirra bæjardyrum séð.

Og í stað þess að láta þar staðar numið koma íbúarnir fram með sína eigin lausn. Þeir leggja til að leikskólinn yrði allur á einni hæð og þakið nýtt sem leikvöllur. Húsið yrði lækkað með því að grafa það niður og hæðarmunur í landslaginu nýttur á skapandi hátt.

Þá velta þeir því fyrir sér hvort þarna sé tækifæri til að tengja saman Kópavogsskóla og nýjan leikskóla og opna þannig fyrir flæði og samstarf milli skólastiga.

Helga Jónsdóttir,  fulltrúi Vina Kópavogs í umhverfis-og skipulagsráði, hrósaði íbúunum fyrir umsögn þeirra. „Undirrituð fagnar uppbyggilegum ábendingum íbúa við drög skipulagslýsingar og hvetur til markviss samráðs við þá undir formerkjum íbúalýðræðis,“ segir í bókun hennar.

Heimild: Ruv.is