Home Fréttir Í fréttum Vandað til vegagerðar um Teigsskóg

Vandað til vegagerðar um Teigsskóg

234
0

Vegagerðin leggur mikla áherslu á að minnka umhverfisáhrif vegarins um Teigsskóg. Framkvæmdir á Vestfjarðavegi (60) um Gufudalssveit ganga vel eins og fram kemur í myndbandi um framkvæmdina sem Vegagerðin hefur látið vinna.

<>

Áfangarnir í þessu stóra verkefni eru fimm; einum er lokið, þrír eru í framkvæmd og enn á eftir að bjóða út þann síðasta. „Það er mikil þörf fyrir betri veg hér um svæðið.

Niðurstaðan var sú að fara yfir Þorskafjörðinn og í gegnum Teigsskóg, þar yfir Djúpafjörð og síðan yfir Gufufjörð,“ segir Sigurþór Guðmundsson verkefnastjóri Vegagerðarinnar í framkvæmdum við verkið Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit. Fjallað er um framkvæmdina í myndbandi sem Vegagerðin hefur látið vinna.

Áfangarnir í verkinu eru fimm:

Gufufjörður – tenging við Vestfjarðaveg (lokið)

Þverun Þorskafjarðar (í framkvæmd)

Þórisstaðir – Hallsteinsnes, um Teigsskóg (Í framkvæmd)

Djúpifjörður – tenging við Vestfjarðaveg (í framkvæmd)

Hallsteinsnes – Skálanes, þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar (á eftir að bjóða út).

Hafist var handa við framkvæmdir um Teigsskóg í sumar og leggur Vegagerðin mikla áherslu á að minnka umhverfisáhrif framkvæmdanna eins og hægt er.

„Við ætlum að vanda okkur eins og hægt er að fara hér um þann fræga Teigsskóg. Helst þannig að við getum séð fyrir okkur að vegurinn hafi nánast dottið af himnum ofan. Við viljum halda gróðri sem bestum og ná að endurheimta hann raunverulega,“ segir Sigurþór en það er gert með því að fletta um 20 cm ofan af gróðurtorfum og svarðalagi í vegstæðinu.

Svarðalagið verður síðan endurnýtt með því að leggja það aftur út í vegkanta samhliða því sem vegurinn er byggður upp. „Við erum með Náttúrustofu Vestfjarða með okkur í liði í þessu og erum með vöktunaráætlun til næstu ára um framkvæmdina og árangurinn af endurheimtinni,“ lýsir Sigurþór og leggur áherslu á að Vegagerðin stefni eindregið að því að þetta heppnist vel.

Framkvæmdir allra áfanga ganga vel. „Við erum langt komin með Þorskafjörðinn og erum byrjuð að vinna í Teigskógi. Þá erum við búin að leggja nýjan veg í Gufufirði og erum að klára veg í Djúpafirði líka.“

Þverun Þorskafjarðar ein og sér mun stytta leið milli byggðalaga um 9 km og þegar öllum framkvæmdum verður lokið hefur leiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar verið stytt um 50 km og eru þá Dýrafjarðargöng meðtalin.

Í myndbandinu sem fylgir þessari frétt er einnig rætt við Jóhönnu Ösp Einarsdóttur formann stjórnar Vestfjarðastofu. Hún lýsir ánægju sinni með langþráðar vegabætur og hlakkar til að geta ekið láglendisveg í staðinn fyrir að fara daglega til vinnu yfir heiðarnar Ódrjúgsháls og Hjallaháls.

Þá er rætt við Einar Val Valgarðsson verkstjóra hjá Suðurverki sem er verktaki í framkvæmdunum við þverun Þorskafjarðar. Hann segir framkvæmdir ganga vel við þessa 260 m löngu brú.

Aðstæður á verkstað séu þó oft erfiðar yfir veturinn. Hann segir þverunina munu breyta miklu í framtíðinni, bæði með styttingu á vegalengd og ekki síður með öruggari vegasamgöngum milli byggðarlaga.

Myndband um gerð Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit og brúar yfir Þorskafjörð.

Heimild: Skessuhorn.is