Home Fréttir Í fréttum Ný frumvarpsdrög geti dregið úr byggingu íbúða

Ný frumvarpsdrög geti dregið úr byggingu íbúða

110
0
Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir hætt við að það dragi úr byggingu húsnæðis verði drög að nýju frumvarpi að lögum.
Lögin heimili sveitarfélögum að krefjast þess að fjórðungur þess íbúðarhúsnæðis sem byggt er, verði á hagstæðu verði.

Innviðaráðuneytið hefur lagt fram drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda sem tryggir sveitarfélögum heimild til að krefjast þess að allt að 25% af byggingarmagni samkvæmt nýju deiliskipulagi fyrir tilgreint svæði skuli vera fyrir hagkvæmar íbúðir, leiguíbúðir eða aðrar íbúðir sem njóta stuðnings ríkis eða sveitarfélaga, hvort sem eigandi lands er sveitarfélag, ríki eða einkaaðili.

<>

Nokkrar umsagnir hafa borist um málið. Þannig fær það jákvæða umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Mun draga úr byggingu húsnæðis

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að fara þurfi betur yfir málið áður en frumvarpsdrögin verða að lögum.

„Vandinn við útfærsluna eins og hún er sett fram núna er að hún mun ekki bara draga úr uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði heldur mun hún líka draga úr uppbyggingu húsnæðis almennt,“ segir Sigurður.

Af hverju mun þetta draga úr uppbyggingu á húsnæði?

„Eins og þetta er sett fram þá gildir þessi heimild á línuna. Það gildir þá líka á eignalöndum, ekki bara á löndum í eigu sveitarfélaganna. Þannig að þeir sem eiga eignarlönd vantar hvata til að byggja upp,“ segir Sigurður.

Gengið á stjórnarskrárvarinn eignarrétt

Þannig varði heimildin samkvæmt frumvarpsdrögunum við eignaréttarákvæði stjórnarskrár. Með því að allt af fjórðungur verði að vera íbúðir á hagkvæmu verði, sé hætt við að ekki verði lengur arðbært að byggja íbúðarhúsnæði, segir Sigurður.

„Það eru alla vega líkur á því og veruleg hætta á því. Það segir sig þá sjálft að undir slíkum kringumstæðum verður ekki ráðist í framkvæmdir,“ segir Sigurður.

Heimild: Visir.is