Home Fréttir Í fréttum Reitir töpuðu 271 milljón á þriðja fjórðungi

Reitir töpuðu 271 milljón á þriðja fjórðungi

90
0
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita Ljósmynd: Aðsend mynd

Neikvæð þróun á afkomu eftir skatta skýrist af talsvert minni matsbreytingu og auknum fjármagnskostnaði. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu jókst um 13%.

<>

Fasteignafélagið Reitir tapaði 271 milljón króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 2,8 milljarða hagnað eftir skatta á sama tímabili í fyrra, sem skýrðist þó aðallega af mikilli matsbreytingu.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu jókst hins vegar um 13% frá fyrra ári og nam 2,35 milljörðum á síðasta fjórðungi. Leigutekjur jukust um 315 milljónir og námu ríflega 3,4 milljörðum.

Auk þess að matsbreyting fjárfestingareigna var um 2,4 milljörðum minni en á sama tímabili í fyrra, þá tvöfölduðust fjármagnsgjöld á milli ára og námu 3,25 milljörðum á þriðja fjórðungi.

„Uppgjör tímabilsins ber með sér áhrif aukinna leigutekna, hækkunar aðfanga og umtalsvert hærri fjármagnskostnaðar.

Þá er skörp hækkun vaxta í haust farin að hafa áhrif á matsbreytingu fjárfestingareigna,” segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í uppgjörstilkynningu félagsins

„Óútleigt húsnæði á fjórðungnum tengist að stórum hluta eignum í umbreytingarferli. Pósthússtræti 5 og 3ja hæð Kringlu eru dæmi um stór framkvæmdaverkefni sem er að ljúka, og fara að afla tekna.“

Í byrjun fjórða ársfjórðungs festu Reitir kaup á 4.200 fermetra lagerhúsnæði Alvotech að Lambhagavegi 7 í Reykjavík. Heildarvirði viðskiptanna nam 2,2 milljörðum króna. Jafnframt hefur félagið sett áform sín um byggingu hótels, sem rekið verður undir hatti Hyatt, á Laugavegi 176 af stað að nýju.

Eignir Reita voru bókfærðar á 178 milljarða króna í lok september. Eigið fé fasteignafélagsins nam 59,7 milljörðum.

Heimild: Vb.is